Búið er að leggja mat á verðmæti vátryggðra eigna í Grindavík og samkvæmt því nemur verðmætið 150 milljörðum króna. Er hér fyrst og fremst átt við húseignir í Grindavíkurbæ en ekki orkuverið í Svartsengi eða Bláa lónið sem dæmi.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er bent á að hægt sé að tryggja innbú og lausafé gegn náttúruhamförum með brunatryggingum hjá almennum tryggingafélögum.
Sigurður Kári segir að verði altjón myndu þessir 150 milljarðar falla á NTÍ. Eins og staðan er núna getur sjóðurinn staðið undir bótagreiðslum sem nema um 100 milljörðum króna og ef á þarf að halda getur stjórn NTÍ nýtt heimild til lántöku með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs.
„Til hennar þarf samþykki fjármálaráðherra. Ég hef fengið fullvissu fyrir því frá ráðherra að það samþykki verði veitt ef á þarf að halda. Fari allt á versta veg og eigið fé NTÍ og þeir fjármunir sem fást úr endurtryggingum dugi ekki til greiðslu bóta verður okkur heimilt að fjármagna mismuninn með lántöku,“ segir Sigurður Kári við Morgunblaðið í dag þar sem nánar er fjallað um málið.