Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, á Facebook-síðu sinni.
Hann deilir grein sem birtist á forsíðu Víkurfrétta í byrjun febrúar 2013 en þar var rætt við Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing. Ari hafði haldið erindi um jarðvá á Reykjanesi og benti hann á að á Reykjanesskaganum væru fjögur eldstöðvakerfi og gliðnunar- og eldgosahrinur væru í þeim með 500 til 1000 ára millibili. Síðast hafi gosið á Reykjanesskaganum á þrettándu öld þannig að bráðum færi að nálgast sá tími sem búast mætti við einhverju.
Í umfjöllun Víkurfrétta þar sem vísað var í ummæli Ara sagði orðrétt:
„Það verður ekki hjá því komist að það gjósi á svæðinu og hentugasta staðsetningin fyrir gos er á því svæði þar sem nú er spenna. Hins vegar er líka goshætta við Grindavík og þar geta hraun runnið yfir byggð. Á sama hátt geta hraun ógnað orkuverinu í Svartsengi og eldsumbrot geta einnig ógnað Reykjanesvirkjun. Í ljósi sögunnar er það einnig staðreynd að gos á þessu svæði verða í hrinum sem geta staðið með hléum í jafnvel 30 ár.“
Í umfjölluninni kom fram að Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefði látið hefja vinnu við viðbragðsáætlun um rýmingu byggðar á Reykjanesi og hvernig brugðist verði við því ef raflínur rofna eða vatnslagnir því öll Suðurnes séu háð heitu vatni úr Svartsengi.
Eins og greint var frá í gærkvöldi er það fyrst núna sem ráðast á í gerð varnargarðs á svæðinu en frumvarp þess efnis var samþykkt skömmu fyrir miðnætti.