Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að heimila Grindvíkingum sem sækja þurfa nauðsynjar á heimili sín, sem og fyrirtækjum sem hafa starfsstöðvar í bænum, aðgang að Grindavík í dag. Hver aðili mun hafa fimm mínútur og minnir lögreglustjóri á að þetta úrræði sé aðeins til að sækja gæludýr og nauðsynjar, og hafa beri í huga að ferð til Grindavíkur fylgi áhætta.
Tilkynningin í heild sinni:
„Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um eftirfarandi í dag 14. nóvember.
Áætlun getur breyst án fyrirvara. Aðgangur íbúa inn á svæðið er aðeins fyrir þá sem komust ekki í gær. Mikilvægt að hafa í huga.
Fyrirtæki hafa heimild til þess að fara inná svæðið í gegnum lokunarpóst á tímabilinu 10:00 – 12:00.
Þeir íbúar sem gátu ekki farið til síns heima í gær fá heimild til að fara inná svæðið í gegnum lokunarpóst á þessum tíma: 12:00 – 16:00.
Hvert heimili fær 5 mínútur.
Íbúar á eftirfarandi svæðum geta farið á einkabílum í fylgd viðbragðsaðila frá klukkan 12:00 -14:00:
Aðrir íbúar þurfa að fara í bíl með viðbragðsaðilum frá klukkan 14:00-16:00. Ákvörðun þessi er byggð á áhættumati og til að tryggja öryggi fólks.
Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglu. Íbúar sem fá að fara inn til Grindavíkur eiga að koma á söfnunarstaðinn sem er bílastæðið við gossvæðið, við Fagradalsfjall.
Það þarf að koma um Suðurstrandarveg að austan til Grindavíkur að söfnunarstað. Þar fær fólk frekari leiðbeiningar. Frá söfnunarstað verður ekið á einkabílum í fylgd viðbragðsaðila inn í bæinn.
Heimild til þess að fara inn í bæinn er ábyrgðarhluti og ekki léttvæg ákvörðun og þýðir alls ekki að svæðið sé að öðru leyti opið fyrir umferð. Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglunnar.
Til athugunar fyrir íbúa:
Þessu fylgir áhætta og því mjög mikilvægt að allir sem að henni koma hlýði vandlega öllum fyrirmælum lögreglu sem stýrir þessari aðgerð og virði tímamörk.“