fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Drengurinn sem grét ekki varð maðurinn sem kom til að redda – Segir hjartnæma sögu af manninum í gámnum og frá sláandi viðbragðsáætlun Almannavarna

Fókus
Mánudaginn 13. nóvember 2023 22:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maður mælir styrkleika og stærð einstaklings ekki í því hversu oft hann er sleginn niður heldur bara hversu snöggur hann er að standa upp – og stundum er það [að standa upp] erfitt”, segir Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður fjöldahjálparstöðvar Rauða Krossins, viðmælandi Mumma Týs Þórarinssonar í nýjasta þætti Kalda Pottsins.

Gylfi er reynslubolti sem starfaði lengi við fjölmiðla en færði sig síðar á vettvang hjálparstarfs, enda brennur hann fyrir að hjálpa fólki sem hefur upplifað áföll og styðja það upp á við, í átt að betri líðan. Hann stóð til að mynda vaktina í farsóttahúsinu í gegnum covid og skipulagði móttöku flóttafólks frá Úkraínu svo fátt eitt sé nefnt. Í þættinum ræða þeir Mummi um það sem helst hefur drifið á daga Gylfa og hvað það er sem heldur hjálpareldinum logandi í brjósti hans.

Barnið sem grét ekki fast á leigumarkaði

Gylfi greinir frá því hvernig hann var barn sem olli móður sinni áhyggjum þar sem hann grét aldrei. Hann varð síðar ungur maður sem vissi ekki alveg hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór og villtist svo inn í fjölmiðla og átti eftir að ílengjast þar næstu áratugina. Þar kom hann víða við bæði í þáttagerð og markaðssetningu. Allt út af því að eitt sinn vantaði nýstofnuðu Viðskiptablaði einhvern í starf sem væri óhræddur að tala í síma. Þaðan lá leiðin svo á endum í Rauða krossinn þar sem Gylfi hefur vakið athygli fyrir vaska framgöngu, nú síðast fyrir að halda utan um fjöldahjálparstöðvar fyrir Grindvíkinga, og áður fyrir að halda utan um farsóttahúsin.

Gylfi nefnir að hann er eins og svo margir fastur á leigumarkaði.

„Nú er ég á leigumarkaði því eftir að hafa misst húsið mitt er vonlaust að ætla að kaupa mér húsnæði – því hvernig á maður að gera það? Maður þarf að safna fleiri fleiri milljónum fyrst. Þannig maður lendir á leigumarkaði og maður er eiginlega fastur þar. Ég er að borga 330 þúsund í leigu á mánuði og það er bara stór hluti launa minna sem fer í það. Og þetta er bara svona, því miður. Ég er ekki í þeirri stöðu í dag, að ég persónulega geti breytt þessu nema bara að láta aðeins í mér heyra. Kannski verð ég einhvern daginn í þeirri stöðu að geta breytt þessu. Ég veit það ekki. Og ég veit að það er ekki tiltölulega flókið að breyta þessu, við getum gert svo margt.“

Tilbúnir fyrir allt, jafnvel geimverur

Viðtalið var tekið fyrir atburði helgarinnar, en Gylfi tilkynnti Mumma áður en upptaka hófst að hann væri með símann á sér og yrði að svara ef hann hringdi. Nú væri Reykjanesskaginn að gera vart við sig og mögulegt að rýma þyrfti Grindavík.

„Það er þá það, að ef þyrfti að rýma í Grindavík, eða Svartsengi, þar á meðal í Bláa lóninu, þá þurfum við, Rauði krossinn,  að bregðast við. Við höfum okkar fulltrúa í aðgerðarstjórn Almannavarna og við þyrftum þá, hugsanlega, að opna fjöldahjálparstöð sem myndi rúma þennan fjölda. Við erum undir þetta búin.“

Almannavarnakerfið þurfi alltaf að vera undirbúið undir það versta. Alveg sama hvað hið versta er. Jafnvel þó að allur undirbúningur geti aldrei þýtt að atburðarásin sé alfarið fyrirséð. Alltaf fari eitthvað öðruvísi en reiknað var með. En plönin geti engu að síður veitt leiðbeiningu. .

„Hjá almannavörnum er til plan um það hvað gerist ef það kemur óþekkt loftfar úr geimnum. Það er til. Það verður að vera til.“

Gylfi segir að frá því að hann hætti í fjölmiðlum hafi hann flakkað á milli verkefna. Hann sé kallaður út þegar þurfi að leysa einhverjar flækjur og líkt og ofurhetja hverfur hann svo inn í nóttina að verki loknu, reiðubúinn fyrir næstu átök. Nú sé hann þó kominn á þann stað í lífinu að langa til að festa rætur, þó svo að hasarinn heilli enn.

Maðurinn í gámnum

Gylfi vék líka að skaðaminnkandi nálgun gagnvart fólki sem glímir við fíkn. Hann deildi sögu sem stendur honum nærri frá tíma farsóttahúsanna. Þar fannst dag einn maður liggjandi í ruslagám sem var fullur af matarleifum og covid smituðum búnaði.

Á þessum tíma var rekið farsóttahús fyrir jaðarsetta einstaklinga þar sem skaðaminnkandi nálgun var beitt. Þar tóku starfsmenn við fíkniefnum fyrir hönd skjólstæðinga og gættu þess að skammtastærðir væru í lagi og fylgdust svo með velferð neytenda þeirra í kjölfarið. Gylfi segir að eins hafi fólki staðið til boða að nýta tímann í farsóttahúsinu í afvötnum með þar til gerðum efnum og nýttu það margir.

Einn þeirra var maðurinn í gámnum.

„Þessi maður var búinn að vera á götunni í mörg ár. Var mjög illa farinn af sinni neyslu. Þegar hann fór frá okkur 14 dögum síðar þá var búið að útvega honum vinnu og það var búið að útvega honum húsnæði en fyrst þurfti hann að fara í meðferð og hann gerði það. Hann fór í meðferð, hann mætti í vinnuna og hann flutti í íbúðina og hann er þarna ennþá.“

Eins hafi. margir þeir sem ekki vildu hætta neyslu í farsóttahúsi áttað sig í kjölfarið á því að þeim langaði virkilega að hætta. Allt út af því að þarna höfðu þeir fengið öruggan stað, án þess að vera dæmd, og gátu neytt fíkniefna af öryggi.

Gyfli segir að þó að samtök á borð við SÁÁ séu að gera frábært starf þá henti þeirra nálgun ekki öllum. Þetta sé einfaldlega ekki vandi þar sem ein stærð henti öllum heldur þarf að vera sveigjanleiki.

„Þetta er ekkert kraftaverk – ef þú sýnir fólki virðingu. Ef þú ýtir fólki upp á við, hjálpar því, þá er þetta alveg hægt.“

Hlusta má á viðtalið við Gylfa og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram