Athafnakonan Alexandra Helga Ívarsdóttir opnaði barnavöruverslunina Mía í Ármúlanum á dögunum. Hún greindi frá gleðitíðindunum á Instagram og þakkaði fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn.
„Trúi því varla að draumurinn um barnabúð sé orðinn að veruleika. Smá “pinch me” móment að opna dyrnar og sýna afrakstur síðustu mánaða. Blóð, sviti og tár en útkoman svo margfalt þess virði!
Á svona tímum er ég endalaust þakklát fyrir fólkið mitt sem stóð þétt við bakið á mér og hjálpaði mér í einu og öllu. Elsku pabbi á skilið sérstakt hrós en hann var allt í öllu í framkvæmdum og fleiru, en búðin er í raun meistaraverk eftir hann þar sem hann sérsmíðaði innréttingar og fleira.
Og þakkir til @viktoria.interior fyrir hjálpina að gera allar hugmyndirnar að veruleika! Hlakka mikið til að taka á móti ykkur í Mía.“
Alexandra keypti húsnæðið í lok síðasta árs í gegnum félagið Santé North ehf. fyrir 260 milljónir króna.
Hún var áður í samstarfi með Móeiði Lárusdóttur en þær stofnuðu félagið Móa&Mía í fyrra og opnuðu netverslun með sama nafni, sem hét moaogmia.is þar til fyrir um tveimur vikum síðan. Nú heitir verslunin aðeins Mía og er Alexandra Helga eigandi verslunarinnar.
Fallegum kveðjum rignir yfir athafnakonuna og sýndi Móeiður vinkonu sinni stuðning með því að setja tvö hjartatjákn við færsluna.
Eiginmaður Alexöndru Helgu er knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson og kærasti og barnsfaðir Móeiðar er knattspyrnumaðurinn Hörður Björgvin Magnússon. Báðir eru margreyndir landsliðsmenn.
View this post on Instagram