Pétur Pétursson, prófessor emeritus í kennimannlegri guðfræði, hefur rýnt í bók Guðmundar Magnússonar um Sr. Friðrik, og gefur bókinni lofsamlega umsögn í Morgunblaðinu í dag.
Pétur skrifar:
„Ævisaga Guðmundar um séra Friðrik er í raun saga KFUM og þeirra félaga sem tengdust þessari kröftugu kristnu hreyfingu og skýringin er sú að Friðrik var lífið og sálin í henni allt frá stofnun unglingadeildarinnar í Reykjavík árið 1899.
Höfundur rekur æviferil Friðriks ítarlega og greinir frá því fólki sem hann mætir á lífsleiðinni og áhrifum þess á hann og oft hefur hann einnig heimildir um það hvaða áhrif Friðrik hafði á annað fólk. Friðrik hafði greinilega mikla persónutöfra og var ríkum hæfileikum búinn og þeim beitti hann markvisst að því lífstakmarki sem hann hvikaði ekki frá alla sína ævi eftir að hann kynntist starfi KFUM í Kaupmannahöfn þar sem hann var við háskólanám – en það var að leiða drengi til persónulegrar trúar á Jesú Krist.“
Pétur rekur efni bókarinnar en víkur í lok greinar sinnar að nánum samböndum sr. Friðriks við barnunga drengi. Pétur telur að miðað við lestur bókarinnar hafi sr. Friðrik ekki farið yfir strikið í samskiptum við drengina. Í viðtali í Kiljunni sagðist höfundur bókarinnar, Guðmundur Magnússon, vona að sr. Friðrik hefði ekki brotið af sér en tiltók reynslusögu sem bendir til annars. Pétur skrifar hins vegar:
„Guðmundur gerir grein fyrir nánum vinasamböndum Friðriks og aðdáun hans á einstaka drengjum og eru lýsingarnar sums staðar eins og um ástarsambönd sé að ræða. Vitnað er í fjölmörg einkabréf og skjalasafn Friðriks, sem varðveitt er í höfuðstöðum KFUM í Holtagörðum og hefur verið opið höfundi, en af bókinni að dæma virðist Friðrik ekki hafa farið yfir strikið í þessum nánu samböndum og stendur því enn á þeim helgistalli sem hann nauðugur eða viljugur ávann sér í lifanda lífi eftir þessa bók, sem tvímælalaust á það skilið að verða klassísk hvað varðar sögu séra Friðriks og KFUM.“