Til að þetta gangi upp þarf að nota nokkur ómönnuð geimför og bíl sem er nú þegar á Mars. Hann safnar steinsýnum sem verður síðan skotið á loft frá Mars með geimfari og send til jarðarinnar. Ef þetta gengur eftir verður það í fyrsta sinn í sögunni sem geimfari verður skotið á loft frá annarri plánetu og í fyrsta sinn sem tvö geimför mætast á braut um aðra plánetu.
En verkefnið er í uppnámi því kostnaðurinn við það hefur hækkað mjög mikið og óháð úttekt á því, sem var gerð á vegum NASA, sýnir að kostnaðurinn verði líklega 8-11 milljarðar dollara en áður hafði verið gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 4,4 milljarðar. Hugsanlega þarf að fresta eða hætta við ýmis önnur verkefni NASA til að geta tekist á við þetta metnaðarfulla verkefni.
Það hefur vakið óánægju meðal margra vísindamanna að nú þegar er búið að hætta við fjárveitingar til annarra verkefna á vegum NASA vegna Mars-verkefnisins. Meðal þessara verkefna er Veritas-verkefnið sem gengur út á að senda geimfar til Venus til að rannsaka af hverju plánetan hætti að vera lífvænleg.