Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er ekki ánægður með tilkynningu Veðurstofunnar sem birtist fyrr í dag. Ítrekar hann að aðeins íbúum Þórkötlustaðahverfis, austast í Grindavík, verður hleypt heim til sín til að sækja nauðsynjar.
„Þessi aðgerð er mjög takmörkuð. Ég hef fréttir af því að fólk sé farið að safnast. Þessar upplýsingar sem má lesa af heimasíðu Veðurstofunnar eru óheppilegar. Þetta ekki það sem við viljum sjá. Ég minni á og ítreka að fyrstu fréttir varðandi atriði sem þessi koma frá Almannavörnum,“ sagði Úlfar í aukafréttatíma RÚV í dag.
Veðurstofan greindi frá því klukkan 11:30 að mat vísindamanna væri það að svigrúm væri til tímabundinna aðgerða til að sækja nauðsynja.
„Það var sameiginlegt mat fundarins út frá nýjustu gögnum að svigrúm sé til tímabundinna aðgerða á vegum almannavarna til að sækja nauðsynjar fyrir íbúa og sinna brýnum erindum í Grindavík og nágrenni. Á meðan að á þeim aðgerðum stendur verður vakt svæðisins aukin og fylgst náið með merkjum um hvort að kvika komi upp. Það var mat vísindamanna eða ráðlegt væri að hefja þessar aðgerðir strax þar sem óvissa um framvindu atburðarins vex eftir því sem líður á daginn,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar.
Mikill fjöldi bíla hefur safnast við lokunarpóstana. Þetta eru Grindvíkingar sem bíða þess að fá að komast heim til að ná í eigur sínar.
Rúmum klukkutíma síðar, eða tæplega 13:00 kom tilkynning frá lögreglunni um að aðeins íbúum í Þórkötlustaðahverfi yrði leyft að sækja nauðsynjar. En það er fámennt og dreifbýlt hverfi austast í Grindavík.
Einn úr hverri fjölskyldu má fara og verður fylgt að heimili sínu. Aðeins má taka það allra nauðsynlegasta og tíminn er áætlaður 5 mínútur á íbúa.
„Öðrum íbúum Grindavíkur verður ekki heimilt að fara inn í bæinn. Þetta er staðan í dag og næstu klukkutíma. Að svo stöddu er ekki svigrúm til að fara inn í önnur hverfi bæjarins,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Skömmu seinna barst tilkynning frá Almannavörnum þar sem þetta var ítrekað.
„Við ítrekum við aðra íbúa að keyra alls EKKI í átt að Grindavík og ekki safnast saman á lokunarpóstum. Íbúar í Þórkötlustaðahverfi sem fá að fara inn til Grindavíkur fara ekki þangað á eigin bílum. Íbúar sem fá að fara inn í til Grindavíkur eiga að koma á söfnunarstaðinn sem er bílastæðið við gossvæðið, við Fagradalsfjall. Ekki er heimilt að aka í gegnum Grindavíkurbæ, því þarf að koma um Suðurstrandarveg að austan eða frá Þorlákshöfn eða Krýsuvíkurvegi. Frá söfnunarstað verður ekið í bílum viðbragðsaðila inn í bæinn.“