James Maddison, leikmaður Tottenham, verður frá út árið hið minnsta.
Þetta staðfesti stjóri liðsins, Ange Postecoglou, í dag en þetta er mikið högg fyrir Tottenham. Maddison gekk í raðir liðsins frá Leicester í sumar og hefur verið hreint frábær.
Maddison meiddist gegn Chelsea á mánudag og fór í skanna eftir leik sem lét í ljós alvarleika meiðslanna.
„Hann er nokkuð illa meiddur á ökklanum og verður frá í einhvern tíma, líklega inn í næsta ár,“ sagði Postecoglou á blaðamannafundi í dag.
Maddison var í enska landsliðshópnum sem mætir Möltu og Norður-Makedóníu á næstunni en hann neyddist til að draga sig úr honum vegna meiðslanna.