Eggert Aron Guðmundsson, einn besti leikmaður Bestu deildarinnar í sumar, er gestur í nýjasta þætti af Íþróttavikunni sem kemur út í kvöld.
Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum að vanda og mun hinn 19 ára gamli Eggert, sem er á mála hjá Stjörnunni, sitja með þeim.
Eggert hefur mikið verið orðaður við atvinnumennsku og var hann spurður út í framtíð sína í þættinum.
„Ég get sagt ykkur það að það er líklegra en ekki að ég fari út í janúar,“ sagði Eggert þá, eins og sjá má í meðfylgjandi stiklu.
Eggert var einnig spurður út í hvort það væri einhver einn áfangastaður líklegri en annar og hvort Skandinavía væri líkleg. „Já og svo eru lið á meginlandinu sem eru mjög heillandi,“ sagði kappinn þá.
Þátturinn verður aðgengilegur hér á 433 og í Sjónvarpi Símans frá klukkan 19 í kvöld. Kemur hann þá út á helstu hlaðvarpsveitur í fyrramálið.