Hann sagði enga spurningu að það muni gjósa, spurningin sé bara hvenær. Það sé ekki hægt að dæla endalaust inn í hólfið, þar sem kvikan er að safnast fyrir. Berg hafi ákveðna sveigju og möguleika til að taka við og að lokum verði spennan orðin svo mikil að þakið bresti og þá sé komið gat upp á yfirborðið.
Hann sagði mikilvægt að strax verði byrjað að tryggja innviði á Reykjanesskaga, búið sé að hanna varnargarða sem munu liggja um virkjunina í Svartsengi og Bláa lónið.
Hvað varðar Grindavík sagði hann að eins og staðan er núna þá nái hraunið ekki að bænum fyrr en eftir 4-5 daga. „Það á ekki að þurfa að vera panik, menn þurfa bara að vita þetta,“ sagði hann.