fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: *Félagsdýrafræði

Eyjan
Föstudaginn 10. nóvember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég trúi að langflestar manneskjur fæðist með hæfileikann til að skilja rétt frá röngu. Að innan í okkur sé einskonar ás, kontrapunktur eða sál sem, án þess að orð nái endilega utan um það eða vísindin geti stutt það, sýni okkur býsna vel, hvað klukkan slær hverju sinni. Sumir vilja kalla þetta innsæi, innri rödd jafnvel, en hvað við köllum það skiptir bara alls engu máli. Það þarf ekki allt að heita eitthvað! Flestir vita, tel ég, hvert ég er að fara.

Að finna eitthvað á sér er eiginleiki og vanmetinn hæfileiki sem við manneskjurnar eins og önnur dýr búum yfir. Sími hringir og þú veist hver er að hringja án þess að þú sjáir hver hringir og þótt þú hafir alls ekkert átt von á að heyra í viðkomandi. Þér verður hugsað til einhvers og þú hittir þann sama stuttu síðar. Þú mætir í veislu fullur tilhlökkunar og þú veist þegar þú gengur inn, án þess að hafa til þess nokkrar gefnar forsendur, að þetta verður ekki skemmtilegt partý. Þú tekur að þér verkefni og þú finnur á fyrsta fundi að samstarfið verður gjöfult eða þvert á móti þú finnur strax að leiðin verður grýtt. Þú ert staddur einhvers staðar og allt í einu veistu að þú gerðir rétt í því að koma þér í burtu, hvers vegna, veistu kannski alls ekki.

Þegar innsæið talar til manns kemur það skilaboðum á framfæri á ýmsa vegu. Persónulega er þetta á stundum eins konar tilfinning sem tekur yfir líkamann stutta stund, stundum eins og örlítil vanlíðan, eða eins og pirringur í skrokknum, maður þarf að skipta um stellingu, standa upp, hreyfa sig. Stundum er þetta bókstaflega eins og að fá eldingu í höfuðið og maður undrast, af hverju er ég að hugsa um þetta núna? Hvaðan kom þetta?

Við skynjum líka í samskiptum við annað fólk hvort þau samskipti eru yfirborðsleg eða heilshugar. Fljótt vitum við hvort við kunnum vel við annað fólk eða bara alls ekki. Nærðu sambandi við viðkomandi eða eru samskiptin öll á yfirborðinu. Fylgir hugur máli? Við merkjum, ef við hlustum eftir því, hvort fólk er heiðarlegt eða ekki, oftast nær. Of oft leiðum við þessar uppgötvanir hjá okkur, stundum vegna þess að við viljum trúa því að viðkomandi sé öðruvísi en hann er. En við finnum þetta allt saman innst inni og vitum lengra en nef okkar nær.

Ég held að allt of oft látum við öðrum eftir stjórnartaumana hugsunarlaust. Innsæið er ágætis innri búnaður sem við ættum að treysta á í miklu meiri mæli. Efla það og styrkja og þar með standa betur með okkur sjálfum, mynda skoðanir með eigin athugunum og taka ákvarðanir út frá því og með því, hlusta eftir því hvað okkur er virkilega fyrir bestu. Innsæið svíkur okkur sjaldnast.

Ég fékk það heimaverkefni frá frábærum sálnahirði síðastliðið snemmsumar að fara í skoðanabindindi í heila viku og þetta er með merkilegri tilraunum sem ég hef farið í á sjálfri mér, því bæði er ég hvatvís og frökk að eðlisfari en líka áhugasöm og forvitin um hvað það er, sem raunverulega stjórnar gjörðum okkar og hegðun, svo forvitnin rak mig áfram. Hann bað mig að auki að fylgjast vel með því sem gerðist innra með mér í þessu bindindi. Ég þagði yfir þessu við aðra og lagði af stað í könnunarleiðangur. Þetta var síður en svo auðvelt, skal ég ykkur segja.

Ímyndið ykkur að sitja undir rökræðum og vita auðvitað betur að eigin viti, en sitja á sér. Að hlusta á röksemdafærslur sem manni finnast kjaftæði en segja ekki múkk. Að kunna miklu betri sögu sem tengist umræðuefni en stilla sig um að láta ljós sitt skína. Að finna sig knúinn í meðvirkni til að aðstoða einhvern við að koma einhverju á framfæri af því að maður telur sig auðvitað vera með miklu betur formaða hugsun í kollinum en mega það ekki. Ég að auki, til að flækja mér verkefnið ofurlítið og reyna það til fulls, gerði mér upp áhugaleysi eða bara kunnáttuleysi ef ég var kölluð til skrafs og ráðagerða um eitthvað. Að yppa öxlum og brosa varð oft þrautalendingin. Þetta varð stundum eiginlega alveg óbærilega erfitt. Það að verða vitni að því í sjálfum sér hvað það er sem gerist innra, þegar maður tekur aftursætið í bókstaflegri merkingu, er magnað.

Við erum öll alltaf að reyna að sanna eitthvað. Að við vitum betur, að við séum gáfuð, skynsöm, fyndin og síðast en ekki síst ómissandi sérfræðingar sem samfélagið getur ekki verið án. Það var heldur ekki laust við að ég kenndi í brjóst um samferðafólk mitt og fjölskyldu þessa umræddu viku; að það fengi ekki að njóta gáfna minna og leiftrandi innslaga úr smiðju undirritaðrar.

Já, mikils fer það á mis mannfólkið þegar ég grjótheld kjafti! Það ráfar bara um í myrkri þegar mín nýtur ekki við!

Niðurstaða rannsóknar minnar var sú að það er nákvæmlega engin eftirspurn eftir áliti manns eða skoðunum. Og annað, við hlustum flest afar illa hvert á annað.

Í skoðanabindindinu lærði ég ekki bara margt um eigið vesæla en háværa egó og líkamlegu þjáningarnar sem það veldur manni þegar maður má ekki sanna neitt fyrir neinum, heldur varð ég í aftursætinu líka mjög meðvituð um það hvað manneskjurnar eru eiginlega brjálæðislega áhugaverðar. Hvað þetta hópdýr, manneskjan, er alltaf að gera sig gildandi og það eftir ótrúlegustu leiðum. Við þurfum nefnilega á hvert öðru að halda og við gerum ýmislegt kostulegt til að sanna og tryggja tilveru okkar, því ekkert okkar vill vera eitt, engum til gamans eða gagns.

Þegar maður hlustar og tekur ekki þátt, þá ljúkast augu manns upp fyrir atferli annarra og maður þekkir strax hjá öðrum kunnuglegar kenndir og hegðunarmynstur. Við erum öll eitt. Það er allrar athygli vert að skoða hvað býr að baki tjáningu fólks, það er, hvaðan fólk tjáir sig. Hvaða ímynd eða hugmynd um sjálft sig það er að verja hverju sinni.

Því, hver erum við ef við höfum ekkert til málanna að leggja? Ef enginn hlustar á okkur? Kannski erum við ekki neitt? Óþörf? Er það óttinn?

Sérfræðingar og valdafólk í okkar samfélagi er augljóslega í töluverðum vafa um eigin tilverurétt og tilgang. Um leið og einhver vesalings manneskja ber eitthvað á borð eða tjáir sig um eitthvað eða gagnrýnir, rísa sérfræðingar upp á afturlappirnar og berja sér á brjóst svo ekki sé um villst að hér fari menntaður sérfræðingur sem hlusta beri á! Svona á að ræða um hlutina! Þetta eru orðin sem nota skal! Þetta má segja, annað ekki!

Hvað fer þar af stað hið innra? Það er náttúrlega ótækt ef einhver spyr ekki sérfræðing/valdamanneskju um það sem hann er sérfræðingur í? Birtist efinn um eigið ágæti kannski í oflæti sérfræðinganna? Er nagandi efinn rangan á sjálfsréttlætingunni?

Manneskjan er geggjað fyrirbæri. Við þekkjum þetta allt saman. Týpurnar sem alltaf taka orðið án þess þó að hafa eitthvað til málanna að leggja og forma hugsunina stundum endasleppa bara jafnharðan, bara til að vera með í samtali og gleymast ekki. Týpurnar sem alltaf koma með lærðar útskýringar svo enginn velkist í vafa um að viðkomandi hafi nú aldeilis stúderað eitthvað í þaula og mark beri að taka á. Fólkið sem alltaf slær öllu upp í grín frekar en að taka afstöðu og móðga hugsanlega einhvern. Fólk sem talar óeðlilega hægt svo ekki fari fram hjá neinum að hér sé ekki um fleipur að ræða, svo einhver dæmi séu tekin.

Við þekkjum vel fólk í valdastöðum sem tekur leikklæði embætta sinna afskaplega alvarlega og stundum er persónusköpunin svo undarleg að enginn vegur er að skilja ekki upp eða niður í því hvað sagt er og jafnvel engu líkara en vanstillt vélmenni sé að tala.

Ég hvet ykkur til að horfa á fréttirnar með nýjum gleraugum og virða fyrir ykkur viðmælendurna af undrun og áhuga. Þá leikþætti sem bornir eru á borð. Ekki hafa skoðun á neinu, virðið bara fyrir ykkur manneskjurnar sem eru að verja málstað sinn og leika hlutverkin sín sem mest þau mega. Skyggnist á bak við grímurnar, sem við reyndar öll berum.

*Félagsdýrafræði er úr orðasmiðju Péturs Þorsteinssonar, Kópaskeri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar