Lyle Foster, framherji Burnley spilar hvorki né æfir með félaginu næstu vikurnar vegna andlegra veikinda sem hrjá hann.
Félagið segir frá þessu í yfirlýsingu og að framherjinn fái allan þann stuðning sem hann þarf.
Foster er á sínu öðru tímabili hjá Burnley en hann gerði nýjan samning við félagið á dögunum. Með Burnley leikur Jóhann Berg Guðmundsson.
Burnley segir í yfirlýsingu að Foster sé nú með hjálp fagaðila að vinna í sínum málum og fá allt það svigrúm sem hann þarf til þess.
Foster er sóknarmaður frá Suður-Afríku sem hafði verið í stóru hlutverki í liði Burnley í upphafi móts.