Næstkomandi mánudag verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Héraðssaksóknari hefur höfðað gegn 28 ára gömlum lögreglumanni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir líkamsárás og brot í starfi, fyrir að hafa farið offari við handtöku manns utandyra í Aðalstræti 16 í Reykjavík. Atvikið átti sér stað í vor, aðfaranótt laugardagsins 27. maí.
Í ákæru segir að lögreglumaðurinn hafi ítrekað beitt úðavopni gegn manninum og sparkað í vinstri fótlegg hans án þess að hann veitti mótþróa við handtökuna. Hann hafi síðan slegið manninn fjórum sinnum með kylfu í líkamann þar sem maðurinn lá á fjórum fótum, án þess að nauðsyn bæri til.
Meint brot lögreglumannsins eru sögð varða 132. grein og 1. málsgrein 217. greinar almennra hegningarlaga. Í fyrri greininni segir að ef opinber starfsmaður „gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.“
Í 217. grein segir að hver sá sem gerist sekur um líkamsárás skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, séu afleiðingar árásarinnar ekki mjög alvarlegar, annars er refsiramminn víðari.
Sem fyrr segir verður málið þingfest næsta mánudag og má búast við að réttarhöld verði skömmu eftir áramót.