Á laugardag býður breska uppboðshúsið Henry Aldridge and Son Ltd. upp tæplega 300 muni sem voru í eigu farþega breska skipsins Titanic, sem sökk í jómfrúarferð sinni 15. apríl 1912.
Skipið, sem sigldi frá Southhampton í Bretlandi til New York, var kallað „ósökkvandi skipið“ og því voru aðeins 20 björgunarbátar um borð, þó skipið væri hannað fyrir 64 slíka. Björgunarbátarnir 20 gátu borið 1178 manns, meðan skipið gat borið 3320 manns, þar af 885 áhafnarmeðlimi.
2224 manns voru um borð og létust um 1500 þegar skipið sigldi utan í borgarísjaka á fjórða degi ferðarinnar, um 2.20 eftir miðnætti brotnaði skipið í tvennt og sökk.
Á vef uppboðshússins má sjá að þeir þrír hlutir sem eru hæst verðmetnir eru teppi, vasaúr og matseðill.
Björgunarbátsteppi, sem einn eftirlifanda hafði utan um sig, með nafni eiganda skipsins „White Star Line„ er með hæsta verðmatið, en talið er að það muni seljast á 70 – 100 þúsund pund.
Svissneskt vasaúr sem var í eigu hins rússneska Sinai Kantor er í öðru sæti, en talið er að úrið muni seljast á 50 – 80 þúsund pund. Kantor var farþegi á öðru farrými ásamt eiginkonu sinni, Miriam. Úrið er á meðal muna sem fundust á Kantor þegar lík hans var dregið úr sjónum, Miriam lifði af og fékk eigur manns síns sendar til sín.
Úrið er með hebreskum tölustöfum og á bakhliðinni er mynd af Móses með boðorðin tíu. Tekið er fram að úrið sé velgt eftir veru þess í ísköldum sjónum, vísarnir rýrðir og skífan blettótt.
Matseðill af fyrsta farrými, dagsettur 11. apríl, þremur dögum áður en Titanic sigldi á, er í þriðja sæti, en hann er metinn á 50 – 70 þúsund pund. Vatnsblettir eru á seðlinum, en hann er eigi að síður mjög læsilegur og má sjá að á meðal þess sem var boðið upp á er forréttur „Lax Hollandaise“ og „Squab à la Godard“ og eftirréttir „Apríkósur Bordaloue“ og „Victoria Pudding“.
Matseðillinn fann dóttir Len Stephenson, sagnfræðings sem bjó í Nova Scotia í Kanada, í myndaalbúmi sem var í eigu Stephenson. Mörg lík farþega Titanic voru dregin úr sjó við Nova Scotia. Ekki er vitað hvernig matseðillinn komst í eigu Stephenson.