Sex leikjum er nýlokið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikið var í riðlum A, B, C og D.
A-riðill
FC Kaupmannahöfn tók á móti Manchester United í ótrúlegum leik. Það stefndi í nokkuð þægilegt kvöld fyrir gestina frá Englandi og kom Rasmus Hojlund þeim í 0-2 á fyrsta hálftímanum gegn sínum gömlu félögum.
Á 42. mínútu fékk Marcus Rashford hins vegar hálf fáránlegt rautt spjald og við það breyttist leikurinn. Mohamed Elyounossi minnkaði muninn fyrir FCK áður en Diogo Goncalves jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Á 69. mínútu fékk United vítaspyrnu og úr henni skoraði Bruno Ferndandes. Útlitið orðið gott fyrir gestina að nýju.
FCK átti hins vegar eftir að snúa dæminu við. Lukas Lerager jafnaði á 83. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Roony Bardghji sigurmark leiksins. Lokatölur 4-3.
Í sama riðli vann Bayern Munchen 2-1 sigur á Galatasaray þar sem Harry Kane skoraði bæði mörk þýska liðsins.
Bayern er með fullt hús eftir fjóra leiki en baráttan um annað sætið er galopin. FCK er í öðru sætinu með 4 stig, eins og Galatasaray. United er svo á botninum með 3 stig en liðið á eftir að mæta Bayern og Galatasaray.
B-riðill
Arsenal er komið í góða stöðu í þessum riðli eftir ansi þægilegan sigur á Sevilla í kvöld. Leandro Trossard kom Skyttunum yfir eftir frábæra sókn á 29. mínútu.
Bukayo Saka innsiglaði svo 2-0 sigur með glæsilegu marki. Fór hann svo reyndar út af, að því er virtist vegna meiðsla, en ekki er vitað hvort það sé alvarlegt.
Í hinum leik riðilsins vann PSV 1-0 sigur á Lens og baráttan um annað sætið því hörð.
Arsenal er efst með 9 stig, PSV í öðru með 5, Lens í þriðja með jafnmörg og Sevilla með 2 stig.
C-riðill
Real Madrid vann þægilegan 3-0 sigur á Braga frá Portúgal. Brahim Diaz kom Madrídingum yfir á 27. mínútu. Vinicius Junior og Rodrygo innsigliðu svo 3-0 sigur með mörkum með skömmu millibili þegar um hálftími lifði leiks.
Úrslitin þýða að Real Madrid er komið í 16-liða úrslit og er efsta sæti nokkuð tryggt einnig. Liðið er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.
Napoli, sem gerði óvænt jafntefli við Union Berlin í dag, er einnig í góðri stöðu en liðið er með 7 stig í öðru sæti, 4 stigum á undan Braga og 6 á undan Union.
D-riðill
Í D-riðli skoraði Lautaro Martinez eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 85. mínútu í sigri gegn RB Salzburg.
Í hinum leik riðilsins vann Real Sociedad þægilegan sigur á Benfica fyrr í dag og eru bæði þessi lið tryggð í 16-liða úrslit.