Í meira en tuttugu héruðum hafa ólöglegar veðurstöðvar fundist sem senda veðurupplýsingar til erlendra ríkja að sögn kínverskra yfirvalda. Þetta brýtur gegn kínversku persónuverndarlöggjöfinni og ógnar öryggi ríkisins að mati ríkisstjórnarinnar. CNN skýrir frá þessu.
Ekki hefur verið skýrt frá hvaða erlendu ríki eiga í hlut. Yfirvöld segja að veðurstöðvarnar séu mjög litlar og erfitt að finna þær, auk þess sé mjög auðvelt að setja þær upp. Segja yfirvöld að þær hafi verið settar upp nærri stöðum á borð við herstöðvar og fyrirtæki sem starfa fyrir varnarmálaiðnaðinn. Eru veðurgögnin sögð geta gagnast við að fylgjast með vöruflutningaöryggi, matvælaframleiðslu og loftslagsbreytingunum.
CNN segir að ráðuneyti öryggismála ríkisins segi að þessi ólöglega upplýsingaöflun skaði sjálfstæði Kína og ógni öryggi þeirra.
Kommúnistastjórnin hefur nýtt málið til að herða löggjöf varðandi njósnir og þrengt hana þannig að nú nær hún ekki aðeins yfir ríkisleyndarmál, heldur einnig skjöl og annað sem tengist hagsmunum ríkisins og öryggi.