Þetta skrifaði 32 ára karlmaður á samfélagsmiðlinum Reddit og sagði að erfiðleikar hafi komið upp í hjónabandinu þegar þrítug eiginkona hans ákvað að fara í brjóstastækkun.
Hann segist hafa sagt henni að hann „elskaði hana eins og hún var“ og hafi ekki talið þörf á brjóstastækkun en studdi hana þegar hún fór í aðgerðina 2021. Hún hafi verið mjög ánægð með útkomuna, þetta hafi styrkt sjálfstraust hennar og „örugglega örvað hana til að sýna þau“ því hún hafi hætt að ganga í víðum fötum sem leyndu líkamsvexti hennar og hafi farið að klæðast mjög þröngum fatnaði og fatnaði sem sýna líkamsvöxtinn vel sem og brjóstaskoruna.
Hann segir að málin hafi síðan þróast á verri veg þegar konan fór að sýna fólki brjóstin á sér: „Hún var aðallega að sýna vinkonum sínum þau en það fannst mér skrýtið en þetta fór samt eiginlega ekki yfir mörkin . . . en samt sem var eins og þegar hún sýndi þau og fékk hrós frá fólki, þá var það eins og hvatning til hennar um að halda áfram að gera þetta.“
Hann segir síðan að hún hafi síðan farið yfir mörkin þegar þau voru heima hjá vinum sínum í mat. Eiginkonan hafi fengið sér aðeins of mikið að drekka og hafi sýnt vinkonu sinni brjóstin þegar eiginmaður hennar stóð hjá þeim. Hann segist hafa rætt þetta við hana en hún hafi gert lítið úr tilfinningum hans og látið eins og hann væri bara stjórnsamur.
Hann segir hana síðan hafa farið alveg yfir strikið þegar þau voru heima hjá vinum sínum að horfa á fótbolta með fleira fólki. Hún hafi orðið drukkin og þegar liðið þeirra skoraði hafi hún rifið skyrtuna sína upp um sig og sýnt öllum viðstöddum brjóstin á meðan hún hoppaði af fögnuði. „Hún er ekki einu sinni fótboltaáhugamanneskja og skilur varla hverju er verið að fagna. Í mínum augum var þetta bara afsökun fyrir að sýna öllum brjóstin, án samþykkis þeirra get ég bætt við,“ sagði hann síðan.
Hann segir að þau hafi lítið rætt saman eftir þetta en þetta hafi farið út fyrir öll mörk í hans augum og að þetta geti endað með hjónaskilnaði því hún virði ekki tilfinningar hans og mörk.