fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fréttir

Sigríður fordæmir ummæli um Morgunblaðið – Dóra Björt segir orð hennar afskræmd

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 8. nóvember 2023 15:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttakona og formaður Blaðamannafélags Íslands, telur ummæli borgarfulltrúa Pírata, Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, í gær vera beinlínis til þess fallin að grafa undan fjölmiðlafrelsi. Óskandi sé að stjórnmálamenn sammælist um að ræða málefni fjölmiðla og blaðamennsku á öðrum vettvangi en ofan í skotgröfum pólitískra deilna. Þetta kemur fram í færslu sem Sigríður Dögg birti á Facebook rétt í þessu.

Dóra Björt vék að fjölmiðlum í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í gær. Beindi hún máli sínu að þeim miðlum sem hafa fjallað með gagnrýnum hætti um málefni Reykjavíkur. Þessi umfjöllun væri oft á tíðum verulega ósanngjörn og engan veginn í takt við staðreyndir.

„Sér í lagi af hendi þeirra fjölmiðla sem fylgja augljósri pólitískri stefnu sem snýr að því að sverta borgina, til að flytja ábyrgð á stjórn borgarinnar yfir í hendur Sjálfstæðisflokksins. Það er mjög, mjög miður því það er raunar lýðræðislegt vandamál.

Ég myndi vilja sjá fjölmiðla, sem fá yfir 100 milljónir króna úr ríkissjóðskassanum og hæsta styrk við sinn rekstur af öllum einkareknum fjölmiðlum á Íslandi sýna af sér faglegri og lýðræðislegri vinnubrögð.“

Grefur undan frelsi fjölmiðla

Má álykta að þarna hafi Dóra Björt vísað til Morgunblaðsins en útgefandi þess, Árvakur fékk um 107 milljónir úr ríkissjóð í rekstrarstuðning á þessu ári. Þetta var hæsti styrkurinn sem greiddur var út, en Sýn, útgefandi Vísis, fékk sömu fjárhæð. Vísir og mbl.is eru stærstu miðlar landsins samkvæmt veftalningu Gallup. Morgunblaðið hefur fjallað með gagnrýnum hætti um fjármál höfuðborgarinnar og má á vef miðilsins meðal annars finna allar fréttir um fjármál Reykjavík teknar saman undir málefnaheitinu „Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkurborgar“. Ekki er óþekkt að miðlar tengi fréttir saman undir tilteknum merkjum enda auðveldar það lesendum að kynna sér málefni líðandi stundar til hlítar.

Sigríður Dögg kemur nú Morgunblaðinu til varna og segir að það sé eitt að gagnrýna fyrirkomulag ríkisstyrkja til einkarekinna miðla. Það sé ekkert athugavert við það. Eins sé fólki frjálst að gagnrýna efnistök einstakra miðla. Það sem Dóra Björt hafi þó gert var að setja efnistök í samhengi við ríkisstyrkina. Með því að tengja þetta tvennt saman sé í raun verið að grafa undan fjölmiðlafrelsi. Umræðan um styrki eigi heima á faglegum grundvelli en ekki þeim pólitíska. Umræðuna þurfi að taka upp úr skotgröfum svo stuðla megi að eflingu faglegrar blaðamennsku á Íslandi í þágu almennings og lýðræði.

„Borgarfulltrúi Pírata gagnrýndi í borgarstjórn í gær fyrirkomulag ríkisstyrki til einkarekinna miðla. Á sama tíma gerði hún alvarlegar athugasemdir við umfjöllun einstaka fjölmiðils um fjármál Reykjavíkurborgar. Ég geri ekki athugasemdir við að reglur um úthlutun fjölmiðlastyrkja séu gagnrýndar. Hverjum sem er er sömuleiðis frjálst að finna að efnistökum eða nálgun einstaka fjölmiðla. Mér finnst hins vegar athugunarvert að tengja þetta tvennt saman og tel að slíkt geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi. Það er algjör forsenda opinberra styrkja til fjölmiðla að þeir séu án allra pólitískra afskipta og að reglur um þá séu gagnsæjar og sanngjarnar svo þær uppfylli markmið þeirra, sem er að efla frjálsa fjölmiðla í þágu lýðræðis.

Það er margt sem mætti betur fara í reglum um styrki til einkarekinna miðla, en sú umræða þarf að fara fram á faglegum grundvelli. Alls ekki pólitískum. Það er óumdeilt að staða íslenskra fjölmiðla hefur sjaldan verið verri og að fagleg blaðamennska hefur átt undir högg að sækja. Rekstur fjölmiðla er ósjálfbær á meðan tæknirisar á borð við Google og Facebook sópa til sín meginþorra auglýsingatekna markaðarins og ekki hefur tekist að bæta upp tapið með auknum áskriftum. Styrkir til einkarekinna miðla eru mikilvæg aðgerð til að bæta upp þann markaðsbrest sem orðið hefur því rekstur fjölmiðla er mikilvægur grundvöllur fyrir faglega blaðamennsku sem er mikilvægur grundvöllur lýðræðis.

Það væri óskandi að stjórnmálamenn gætu sammælst um að taka umræðuna um fjölmiðla og blaðamennsku upp úr skotgröfum pólitískra deilna og myndu vinna í sameiningu að eflingu faglegrar blaðamennsku í þágu almennings og lýðræðisins.“

Án þess að Sigríður Dögg segi það berum orðum má ætla af samhenginu að ummæli Dóru Bjartar megi skilja sem svo að borgarfulltrúinn sé þeirrar trúar að fjölmiðill sem þiggur styrk frá ríkinu sé þar með skuldbundinn til að gæta að sér í gagnrýni á hið opinbera. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hver staða frjálsrar fjölmiðlunar yrði á Íslandi ef allir stæðu í þeirri sömu trú, enda væri þá hlutverk fjölmiðla, að veita valdhöfum aðhald, farið fyrir lítið.

Rétt er að greina frá því að Dóra Björt hefur skýrt ummæli sín út nánar í færslu á Facebook.  Þar segir hún að Vísir, sem greindi fyrst frá ummælum hennar, hafi slitið orð hennar úr samhengi. Það sé afskræming á orðum hennar að halda því fram að í þeim hafi falist að fjölmiðill sem gagnrýni Reykjavík ætti ekki að fá neina styrki. Dóra styður málefnalega gagnrýni enda sé það mikilvægur hluti lýðræðisins. Hins vegar ætli hún að leyfa sér að benda á meinta óhlutdrægni einstakra miðla. Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkur hafi staðið fyrir villandi umfjöllun um fjármál borgarinnar og í raun sé um áróður að ræða sem ætlað sé að sverta meirihlutann í borginni svo Sjálfstæðismenn komist aftur til valda.

„Þetta snýst ekki bara um umfjöllun um málefni Reykjavíkurborgar heldur um áróður og slagsíðu almennt, þar sem finna má mörg dæmi um hvernig þessi fjölmiðill gengur erinda sérhagsmuna frekar en almannahagsmuna. Þetta er nefnt sem dæmi um ákveðinn lýðræðisvanda sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag enda Morgunblaðið áhrifa- og umsvifamikill fjölmiðill.

Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðissamfélagi og það skiptir máli að hafa fjölmiðla sem starfa af heilindum í þágu almennings og upplýstrar umræðu. Mér finnst mikilvægt að reyna að styðja við þessi markmið sem samfélag. Fjölmiðlastyrkir eru ein leið til þess, og ég hef tjáð mig um forsendur styrkjanna sem eiga að stuðla að lýðræðislegri umfjöllun. Það er sannarlega ekki hlutverk stjórnmálafólks að setjast svo í dómarasæti við eftirfylgdina. Það eru þegar gríðarlegir fjárhagslegir hvatar til að fjármagna áróður og styrkir til fjölmiðla eiga að vera til að styrkja lýðræðið en ekki til að skekkja leikinn enn frekar. Eru það alvanalegar kröfur og forsendur við veitingu slíkra styrkja erlendis, þó eftirfylgnin geti verið flókin í útfærslu eins og ég hef nefnt. “

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar
Fréttir
Í gær

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili
Fréttir
Í gær

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“