fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Danskur auðkýfingur slökkti á vatnsdælu til sumarhúsa í Skorradal – „Það sem er sérstaklega leiðinlegt eru þessar hótanir“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 9. nóvember 2023 09:00

Deilurnar eru svo harðar að beint samtal hefur ekki geta átt sér stað. Mynd/Wikipedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Harðar deilur standa yfir um vatn í landi Indriðastaða í Skorradalshreppi. Danskur auðkýfingur hefur slökkt á vatnsdælu og hefur hótað að eyðileggja vatnstanka nema sumarhúsaeigendur greiði tugmilljónir króna.

„Stundum höfum við talið okkur vera að ná samkomulagi með aðstoð lögfræðinga. En svo kemur alltaf eitthvað upp á sem við höfum ekki geta sætt okkur við,“ segir Karl Ómar Jónsson, formaður Félags sumarhúsaeigenda á Indriðastöðum.

Eigandi landsins, hinn danski Henrik Falster-Hansen, hefur lengi hótað að slökkva á vatnsdælu úr borholu sem pumpar vatni upp í vatnskerfi sumarbústaðanna. Sumarhúsaeigendurnir segja hins vegar að yfirborðsvatn úr vatnslindum ofarlega í fjallinu dugi þeim.

Vatn og vegir

Indriðastaðir standa sunnan við Skorradalsvatn og þar byrjaði að rísa sumarhúsabyggð á sjöunda áratugnum. Um 200 lóðir eru á landinu en sumir bústaðaeigendur hafa keypt fleiri en eina lóð og sameinað.

Á árunum í kringum bankahrunið voru uppi stórhuga áætlanir um golfvöll á Indriðastöðum og var þá borað fyrir vatni. En golfvöllurinn reis ekki og Indriðastaðabúið fór í þrot árið 2010. Landsbankinn tók landið til sín og Falster-Hansen keypti það af bankanum árið 2013.

Strax lenti hann í útistöðum við sumarhúsafélagið og segja talsmenn þess að hann hafi ekkert vilja af félaginu vita. Deilurnar snúast að mestu um vatnsréttindi, sem Falster-Hansen vill fá greitt fyrir en einnig vegakerfi og lagnir.

Slökkti á dælunni

„Þessi maður hagar sér mjög ókurteisislega við okkur og vill ekki tala við okkur nema með skilyrðum um að við borgum svo og svo mikið og viðurkennum að hann eigi þetta,“ segir Sigmundur Jónsson, formaður Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda á Indriðastaðalandi.

Í mars síðastliðnum var loks slökkt á vatnsdælunni og urðu efstu sumarbústaðirnir fjórir þá vatnslausir. Félagið kom þá upp sinni eigin dælu sem pumpar vatni úr lögnunum upp í efstu bústaðina. Sigmundur segir að það dugi þeim og þeir þurfi núna ekki á dælunni við borholuna að halda.

Krefjast tugmilljóna aftur í tímann

Í bréfi sem lögmaður Falster-Hansen sendi í vor til lögmanns félagsins segir að Falster-Hansen telji að kostnaðurinn sem hann hafi borið frá 2013 fyrir reksturs vatnsveitu fyrir sumarbústaðalóðir nemi 25 milljónum króna. Hafi félaginu verið boðið að greiða 12,4 milljónir til að sýna greiðslu og samningsvilja fyrir viðræður um framtíðarfyrirkomulag. Yrðu greiddar 20 milljónir yrðu engar frekari kröfur gerðar um fortíðina.

„Á meðan á slíkum samningaviðræðum stæði myndi umbjóðendur mínir ekki aðhafast neitt sem truflaði starfsemi vatnsveitunnar,“ segir í bréfinu.

Vatnalög gilda

Ýmis málaferli hafa staðið yfir á undanförnum árum. Félagið kærði á sínum tíma fyrirhugaða lokun vatnsdælunnar og fór það mál alla leið upp í Landsrétt sem úrskurðaði árið 2019 að Falster-Hansen væri ekki skylt að tryggja sumarhúsunum vatn.

Kort af svæðinu sem liggur sunnan við Skorradalsvatn.

Félagið fór fram á það við Orkustofnun að fá nýtingarrétt á vatnslindunum í fjallinu. Orkustofnun svaraði að það væri ekki hægt að fá nýtingarrétt á yfirborðsvatni heldur giltu vatnalög. En þar segir að hægt sé að fara inn á land annarra til að sækja vatn til ákveðinna þarfa. Falster-Hansen kærði þennan úrskurð til Úrskurðarnefndar um umhverfis og auðlindamál en kærunni var hafnað.

Geti ekki bannað fólki að sækja vatn

Þegar lóðir hafa verið seldar út úr jörðinni hefur vatnsveitu og vegum verið þinglýst á þær að sögn Sigmundar. Þar að auki hefur verið tilgreint í samningum að seljendur, sem sagt eigendur Indriðastaða, eigi að stofna vatnsveitufélag og rukka um vatnsgjald, tilgreint með ákveðinni vísitölu. Þetta félag hefur hins vegar ekki verið stofnað.

Þess vegna stofnaði sumarhúsafélagið sitt eigið vatnsveitufélag árið 2019, undirritað af ráðherra. Það félag hefur endurnýjað vatnstanka í vatnslindunum og endurnýjað lagnir.

„Það er óumdeilt að hann á landið en hann getur ekki bannað okkur að ná í vatn samkvæmt vatnalögum,“ segir Sigmundur. Eftir að sumarhúsafélagið var stofnað árið 1986 sé tilgreint hvað fólk hafi greitt til vatnsveitu. „Indriðastaðir hafa ekki komið að því,“ segir hann.

Hóta að stöðva framkvæmdir

Eins og fyrr segir er komin mikil harka í málið og túlkun á vatnalögunum. Hvort félagið megi taka vatn úr lindunum og koma upp innviðum til þess til þess að sinna heimilis og búsþörfum eins og segir í lögunum. Falster-Hansen telur sumarhús ekki falla undir þetta.

„Hvað varðar þá fullyrðingu að umbjóðendur mínir geti ekki nú, einhliða ákveðið gjald fyrir afnot af veitunni og rekstur á borholum þá telja þau sig hafa heimild til að innheimta gjald sem ekki er ósanngjarnt í samræmi við reglur kaupréttar. Ljóst má a.m.k. vera að umbjóðandi þinn getur ekki með sanngirni krafist að fá vatn fyrir ekki neitt,“ segir í bréfi lögmanns Falster-Hansen.

Og enn fremur um ákvörðun Orkustofnunnar og Úrskurðarnefndar: „Það er því alrangt að það liggi fyrir niðurstaða stjórnvalda um að umbjóðandi þinn hafi heimild til að sækja sér vatn eða ráðast í aðrar framkvæmdir á landi umbjóðanda míns vegna vatnsveitu án hans leyfis. Umbjóðandi minn mun leita allra leiða til að stöðva slíkar framkvæmdir á landi sínu hyggist umbjóðandi þinn ráðast í slíkar framkvæmdir.“ En þessi seinni setning er feitletruð í bréfinu.

Harðorð bréf

Sigmundur segir að illa hafi gengið að ná samtali við Falster-Hansen en hann fái þó mánaðarlega harðorð bréf frá honum. Segir í þeim að félagið þurfi að viðurkenna eignarhald hans á vatninu, veitunni og vegunum og greiða fyrir það gjald.

„Það sem sérstaklega leiðinlegt eru þessar hótanir. Hótanir um að eyðileggja og fjarlægja tankana og svoleiðis,“ segir Sigmundur.

Félagið vilji eiga samtal við Falster-Hansen um hvað hann telji sig hafa keypt árið 2013. Því að í þinglýstum gögnum frá sýslumanni sé hvergi tilgreint að hann hafi keypt veituna né vegina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“