Skiptum er lokið í þrotabúi veitingaþjónustunnar Ghost Kitchen ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Skiptum lauk þann 6. nóvember en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum.
Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur nema rúmlega 50 milljónum króna. Forgangskröfur eru 24.718.370 kr., almennar kröfur 26.985.149 kr. og eftirstæðar kröfur 315.140 kr.
Ghost Kitchen var rekið frá Dalvík og þjónaði öllu Norðurlandi. Bauð félagið upp á veisluþjónustu fyrir hina ýmsu aðila og veitingaþjónustu fyrir veitinga- og kaffihús. Einnig rak félagið veitingastaðinn Garún inni í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Í kynningu á þjónustunni voru fyrirsvarsmennirnir þeir Hjörleifur Árnason og Sölvi Antonsson. Hins vegar er Sölvi einn skráður eigandi í fyrirtækjaskrá ríkisskattsjóra.
Fyrirtækið náði ekki að verða tveggja ára því það var stofnað í september 2021. Í stuttu samtali lýsir Sölvi erfiðum ytri aðstæðum við reksturinn:
„Allt var fljótandi. Hráefnið var aldrei á sama verði það komu þrennar launahækkanir á þessu ári, þetta var bara ekki hægt.“
Varðandi endalok Garúnar í Hofi segir Sölvi: „Ákvæði hjá menningarhúsinu Hofi voru of hörð til að geta verið með þetta þar.“
Sölvi vildi ekki úttala sig um hvort Úkraínustríðið eða Covid-faraldurinn hefðu spilað inn varðandi hráefnisverðið. „Ég ætla ekki að fara að benda á neitt eða neinn í þessu sambandi.“