Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ greindi frá því í vikunni að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður sambandsins.
Frá þessu greinir Vanda nú þegar þrír mánuðir eru eftir af kjörtímabili hennar.
Vanda ætlar til fyrri starfa en hún tók við sem formaður KSÍ undir lok árs árið 2021. Vanda á og rekur fyrirtækið KVAN, ásamt eiginmanni sínum og tveimur öðrum.
Ljóst er að rekstur fyrirtækisins er ansi blómlegur og jukust tekjur þess mikið á síðasta ári. „Tilgangur félagsins er námskeiðshald og kennsla fyrir kennara og aðra fagaðila svo og fyrir ungt fólk. Hagnaður af rekstri félagsins á árinu nam kr. 15.275.461.- fyrir skatta samkvæmt rekstrarreikningi og eigið fé þess í lok árs 2022 var jákvætt um kr. 16.883.847.- samkvæmt efnahagsreikningi. Tveir starfsmenn starfa hjá félaginu auk aðkeyptra verktaka,“ segir í ársreikningi KVAN fyrir árið 2022.
Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði allt að 7,2 milljón króna arður til hlutahafa á árinu 2023.
Tekjur félagsins jukust um tæpar 60 milljónir á milli ára og voru rúmlega 180 milljónir króna árið 2022.
Tekjur félagsins minnkuðu í kringum COVID faraldurinn en þær hafa nú náð fyrri styrk en tekjurnar voru 175 milljónir árið 2019 og var góður hagnaður af rekstri félagsins þá.
Auk þess að reka fyrirtækið þá starfar Vanda hjá Menntavísindasvið Háskóla Íslands og fer hún aftur í þessi störf í febrúar á næsta ári.