„Hún sá um mig einu sinni og við slepptum henni aldrei,“ segir Faith Roberts um hjúkrunarfræðinginn Janin Pierce sem hélt í hendi Roberts kvöldið sem hún og tvíburasystir hennar komu í heiminn. Og 22 árum síðar var Pierce enn til staðar og hélt í hendi Roberts þegar hún gaf hana í heilagt hjónaband. „Þetta var enn sérstakari stund vegna þess að brúðkaupið mitt var áfangi sem ég hélt ég myndi aldrei ná,“ segir hin 24 ára gamla Roberts í viðtali við People, sem segir frá hjartnæmu og einstöku sambandi Pierce og Roberts.
Roberts segir að það sé kraftaverk að hún hafi lifað nógu lengi til að finna sanna ást og hún hafi ekki geta ekki hugsað sér að láta ókunnugan aðila staðfesta hjónabandið.
„Ég hef aldrei hitt neinn sem hefur gengið í gegnum það sem ég hef gengið í gegnum, það sem við Pierce höfum gengið í gegnum. Sjúkrahús eru staðurinn þar sem þú getur fundið fjölskyldu þína.“
Tvíburarnir Faith og Rose Aimee fæddust 1. febrúar 1999, en þær voru síamstvíburar, samvaxnar á kvið og loka tengdi hjörtu þeirra saman. Rose var sníkill á Faith sem þroskaðist eðlilega.
„Hún gat ekki lifað sjálf. Hún notaði mitt blóð og hjarta til að dæla í gegnum líkama sinn, eins og ég væri vararafallinn hennar. Læknarnir sáu að þetta var að drepa mig því ég gat ekki haldið okkur báðum á lífi. Svo þeir ákváðu að reyna að bjarga annarri okkar,“ segir Roberts.
Þegar þær voru þriggja daga gamlar voru tvíburasysturnar aðskildar með skurðaðgerð á barnaspítalanum í New Orleans í Bandaríkjunum. Eftir lát Rose breyttu foreldrar þeirra millinafni Faith í Rose til að heiðra systur hennar.
Fjölskylda Roberts og Pierce héldu sambandi og vörðu fríum og afmælum saman. „Hún sá um mig einu sinni og við slepptum henni aldrei,“ segir Roberts.
Vegna þess að tvíburasysturnar fæddust augliti til auglitis og í faðmlögum var bak Faith stakkt og andlit hennar að hluta afmyndað. Hefur hún gengist undir meira en tug skurðaðgerða, allt frá því að hafa kjálkabrotnað á tveimur stöðum, í að bæta tækjum í hjartað og málmstöngum í bak og kjálka. Hún hefur enga kviðvöðva, í staðinn er hún með möskvaskjá sem var settur upp í skurðaðgerð.
„Samstarfsfélagar mínir kalla mig Wolverine. Líkami minn er eins og Tetris-leikur sem enginn getur leyst. Þannig að við erum enn að læra að láta hann virka rétt,“ segir Roberts, sem segir eitt það besta við fjölmargar sjúkrahúsheimsóknir á uppvaxtarárum hennar hafa verið að hún fékk alltaf að hitta Janin „frænku„ sína.
„Læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir, sérstaklega Janin frænka, létu mér líða eins og ég væri ekki ein. Mörg börn verða hrædd þegar þau koma á sjúkrahús. En fyrir mig, þegar ég sá Janin frænku, þá var þetta eins og að vera komin heim. Þetta var staðurinn þar sem fólk skildi mig, það var vel hugsað um mig og mér fannst ég örugg.“
Roberts og Tyler, sem nú er orðinn eiginmaður hennar kynntust í sumarbúðum þegar þau voru 12 ára. Þau urðu góðir vinir og héldu sambandi í mörg ár. Þegar þau voru orðin 18 ára hringdi hann í hana og bauð henni á stefnumót, þar sem hann var staddur einn sólarhring í New Orleans. Eftir það voru þau óaðskiljanleg.
„Hann var fyrsti maðurinn sem horfði virkilega á mig og elskaði örin mín. Mér leið bara eðlilega. Og ég elskaði það.“
Þegar parið byrjaði að skipuleggja brúðkaup sitt í október 2021 bað Roberts Pierce, sem er einnig ungprestur, um að gefa þau saman. „Hún er manneskjan sem bókstaflega annaðist mig allt mitt líf. Ég gat ekki ímyndað mér að neinn annar myndi gefa okkur saman.“
Pierce neitaði þó upphaflega beiðninni, þar sem hún var að ganga í gegnum erfiðan skilnað og var viss um að hún myndi á einhvern hátt klúðra athöfninni, með því að fara sjálf að hágráta eða klúðra ræðu sinni. Roberts gaf sig þó ekki og á endanum sagði Pierce já. Í ræðu sinni fjallaði hún um samband þeirra:
„Fyrir 22 árum naut ég þeirra forréttinda að halda í höndina á Faith Rose aðeins nokkrum klukkustundum eftir fæðingu hennar. Og í dag gleður það mig að gefa þessum góða unga manni hönd hennar.“
Pierce átti einnig eftir að finna ástina að nýju og á 50 ára afmæli hennar núna í september trúlofaðist hún Ray Meline, fyrrum herforingja og upplýsingatæknisérfræðingi og eru þau búin að ákveða stóra daginn, 25. október 2024.