Einn tippari á Íslandi var með alla leikina 13 rétta á Enska getraunaseðlinum síðastliðinn laugardag og fær tæpar 7 milljónir króna í sinn hlut. Tipparinn tippar hjá Íþróttafélagi Fatlaðra í Reykjavík og hefur gert það síðastliðin 15 ár.
„Tipparinn kom til okkar fyrir 15 árum síðan með kerfismiða upp á 141 röð og bað okkur um að setja raðirnar inn vikulega. Þessar raðir hafa verið í kerfinu okkar allan þennan tíma og við höfum sett þær inn samviskusamlega síðan í hverri viku“, sagði Þorgeir Ingólfsson einn umsjónarmanna með getraunastarfi ÍFR.
„Á laugardaginn þegar ég sá að það var ein röð með 12 réttum þegar síðasti leikur getraunaseðilsins var að hefjast tékkaði ég á hver það var og hafði svo samband við tipparann. Hann hafði ekki verið að fylgjast með, en varð ansi spenntur þegar ég sagði honum að hann væri með 13 rétta ef Newcastle myndi vinna Arsenal. Sú varð raunin og tipparinn tæpum 7 milljónum ríkari“ sagði Þorgeir.
Til gamans má geta þess að kostnaður við seðilinn á þessum 15 árum er tæpar tvö þúsund krónur á viku eða rúmar 1,5 milljón króna samtals en auk stóra vinningsins hafa komið nokkrir smærri vinningar á hann í gegnum árin. Það má því segja í þessu tilfelli að þolinmæðin borgi sig.