Ráðherra málefna menningararfs í Ísrael, Amichai Eliyahu, hefur verið vísað úr embætti ótímabundið eftir að hann sagði í viðtali að það kæmi til greina að varpa kjarnorkusprengju á Gazasvæðið.
Tilkynnt var um brottvikninguna síðastliðinn sunnudag.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sagði í færslu á síðu sinni á samfélagsmiðlinum X að yfirlýsingar Eliyahu væru ekki byggðar á veruleikanum.
Forsætisráðherran sagði ísraelska herinn haga aðgerðum sínum í samræmi við alþjóðalög til þess að forðast það að valda saklausu fólki skaða.
Eliyahu sat í ríkisstjórninni fyrir hönd öfga-þjóðernissinnaðs flokks sem heitir Otzma Yehudit (Vald Gyðinga). Hann sagði í útvarpsviðtali að allt fólk á Gaza væri vígamenn og því lögmætt skotmark. Þar af leiðandi væri notkun kjarnorkuvopna einn af möguleikunum sem til staðar væru. Hann dró síðar í land og sagðist hafa verið að tala í myndlíkingum.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Yair Lapid, hafði farið fram á að ráðherrann yrði þegar í stað settur af og sagði yfirlýsingar hans brjálæðislegar.
Talið er næsta víst að Ísrael búi yfir kjarnorkuvopnum en það hefur verið stefna ísraelskra stjórnvalda í áratugi að gefa ekkert út um hvort svo sé.
Politico.eu greindi frá.