Tottenham tók á móti Chelsea í lokaleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni og úr varð svakalegur leikur.
Heimamenn voru mun sterkari til að byrja með og kom Dejan Kulusevski þeim yfir á 6. mínútu.
Skömmu seinna hélt Heung-Min Son að hann væri að koma Tottenham í 2-0 en með hjálp VAR var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Á 21. mínútu kom Raheem Sterling boltanum í netið fyrir Chelsea en mark hans var dæmt af vegna hendi í aðdragandanum.
Nokkrum mínútum síðar kom Moises Caicedo boltanum í net Tottenham og hélt hann væri að jafna en þá var markið dæmt af vegna rangstöðu. Þess í stað fékk Chelsea vítaspyrnu og Cristian Romero rautt spjald fyrir ljótt brot á Enzo Fernandez.
Cole Palmer fór á punktinn og skoraði. Staðan í hálfleik var 1-1.
Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik varð vont verra fyrir Tottenham þegar Destiny Udogie fékk sitt annað gulda spjald og þar með rautt.
Tveimur færri héldu leikmenn Tottenham Chelsea í skefjum en stíflan brast á 75. mínútu þegar Raheem Sterling renndi boltanum á Nicolas Jackson sem kom Chelsea í 1-2.
Ótrúlegt en satt fékk Tottenham sénsa til að jafna tveimur færri og kom Eric Dier knettinum meira að segja í netið. Var markið þó dæmt af vegna rangstöðu.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma skoraði Jackson sitt annað mark og kom Chelsea í 1-3. Leikmenn Tottenham voru gjörsamlega sprungnir og skömmu síðar gulltryggði Jackson 1-4 sigur og þrennu sína í leiðinni.
Úrslitin þýða að Tottenham er áfram í öðru sæti deildarinnar með 26 stig, stigi á eftir toppliði Manchester City. Chelsea er í tíunda sæti með 15 stig.