Jamaal Lascelles, fyrirliði Newcastle, segir að Jorginho, fyrirliði Arsenal í leik liðanna um helgina, hafi neitað að taka í höndina á sér að leik loknum.
Það var mikill hiti í leiknum sem Newcastle vann 1-0. Afar umdeilt sigurmark þeirra fékk að standa og er dómgæslan allt sem er rætt um eftir þennan stórleik.
Leikmenn Arsenal voru því verulega pirraðir að leikslokum.
„Jorginho vildi ekki taka í höndina á mér eftir leik. Ég er því ánægður með að við höfum unnið þá. Þetta er óásættanlegt,“ sagði Lascelles.
„Sama hvað gerist inni á vellinum áttu alltaf að koma íþróttamannslega fram og taka í höndina á andstæðingnum.
Hann vildi ekki gera það og ég var brjálaður. Ég myndi aldrei neita að taka í höndina á fyrirliða andstæðingsins, ekki séns,“ sagði Lascelles enn fremur.