Rapyd hefur gert samstarfssamning við HSÍ um að styrkja íslenskan handbolta. Hluti af samstarfinu felst í styrktarverkefninu Stoðsending Rapyd sem er ætlað að styðja við 10 framúrskarandi unga leikmenn á aldrinum 16 til 21 árs og gefa þeim þannig kost á að efla sig á vettvangi handboltaíþróttarinnar. Hver styrkþegi mun hljóta styrk að fjárhæð 700 þúsund krónur.
Auglýst er eftir umsóknum sem lýsa árangri viðkomandi leikmanns á handboltavellinum, námsárangri og framlagi til nærumhverfis hvers og eins. Umsóknarfrestur er til 5. desember 2023.
Garðar Stefánsson forstjóri Rapyd Europe lýsir ánægju sinni með samstarfið: „Samstarf okkar við HSÍ er meira en bara styrkur til sambandsins. Rapyd ætlar að styrkja ungt afreksfólk í handbolta. Með því að styðja þessa ungu íþróttamenn erum við að fjárfesta í framtíð íslensks handbolta og þar með í framtíð Íslands.“
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ bætti við: „Samstarf okkar og Rapyd markar mikilvæg tímamót fyrir íslenskar íþróttir. Stuðningur Rapyd, bæði við landslið okkar og næstu kynslóð afreksfólks, er ótvírætt merki um hollustu fyrirtækisins við íslensku hefðina sem markast af teymisvinnu, þrautseigju og viljanum til að skara framúr.“