Umræða um það hver myndi bjóða sig fram til formanns KSÍ í febrúar fór fram í hlaðvarpsþættinum, Dr. Football í gær.
Vanda Sigurgeirsdóttir, sitjandi formaður KSÍ hefur ekki viljað svara því hvort hún bjóði sig fram til endurkjörs.
Sögusagnir hafa verið á kreiki um að Vanda ætli ekki í framboð eftir að hafa stýrt þessu stærsta sambandi landsins í tvö og hálft ár.
Því var haldið fram í Dr. Football að Þorvaldur Örlygsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu væri byrjaður að skoða framboð.
Þorvaldur er í dag framkvæmdarstjóri Stjörnunnar en hann átti farsælan feril í atvinnumennsku auk þess að hafa gert vel sem þjálfari.
Þorvaldur þekkir það að starfa hjá KSÍ en hann þjálfaði yngri landslið Íslands með góðum árangri.