„Það er enn þá að flæða inn í þetta geymsluhólf sem er á 4-5 kílómetra dýpi. Eftir því sem meiri kvika flæðir inn, þeim mun meiri þrýstingur byggist upp í því. Ef þakið gefur sig, sem getur alveg gerst, þá eftir því sem yfirþrýstingurinn er meiri, þeim mun meiri hraði yrði á risi kvikunnar og meira afl í gosinu. Eftir því sem þessi atburðarás gengur lengur, þá aukast líkurnar á öflugra gosi, alla vega í byrjun,“ sagði Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hann sagði að það séu ákveðnar breytur sem ráði því hversu hratt kvikan berst upp á yfirborðið. Meðal annars hversu mikill þrýstingur sé, því meiri sem hann sé, þeim mun hraðar rísi hún. Hann sagði líklegt að kvikan muni rísa um 1-4 cm á sekúndu og þá tæki hana 1-4 daga að komast upp á yfirborðið.
„Ég held að við myndum nú fá einhvern viðbragðstíma út frá því þegar við erum farin að sjá kvikuna rísa til yfirborðs. Þá myndum við sennilega fara að sjá skjálfta grynnka og gosóróa og skjálfta koma inn,“ sagði hann einnig og bætti við að hugsanlega geti sólarhringur liðið á milli þess að kvika fer að rísa og þar til hún kemst upp á yfirborðið.
Hann benti jafnframt á að sú staða geti komið upp að kvikustrókar, sem geta framleitt hraun sem ferðast á allt að 20 km/klst, myndist. Ef þannig kvika kemur upp á yfirborðið við Illahraungsgíga, um 1 km frá Bláa lóninu, þá geti hraun náð að Bláa lóninu á þremur mínútum.