Óhætt er að segja að ólífuolía sé orðin mjög dýr og það vita þjófar vel og sjá sé því leik á borði. Að undanförnu hafa þjófar stolið að minnsta kosti 37 tonnum af ólífuolíu í Grikklandi að sögn The Guardian.
Manolis Yiannoulis, framkvæmdastjóri ólífuolíuframleiðenda í Grikklandi, sagði í samtali við The Guardian að um háar fjárhæðir sé að ræða í þessu. Verðið á ólífuolíu hafi hækkað um 200% síðasta árið og því sé gróðavonin mikil.
Hann sagði að fyrir þessi 37 tonn fáist sem svarar til rúmlega 50 milljóna íslenskra króna.
Grikkland er þriðja stærsta ólífuolíuframleiðsluríki heims, aðeins Spánverjar og Ítalir framleiða meira.
Uppskerubrestur á síðustu árum hefur valdið verðhækkunum og ekki bætir úr að það stefnir í uppskerubrest á þessu ári. Hugsanlega verður uppskeran aðeins helmingur þess sem hún er í meðalári.