Í nýlegu viðtali við Glamour skýrði leikkonan Brooke Shields frá því að hún hafi veikst skyndilega í september á síðasta ári þegar hún var stödd í New York.
„Ég var að undirbúa sýningu og drakk mjög mikið vatn, ég vissi ekki að natríummagnið í líkamanum væri lágt. Ég var að bíða eftir Uber og þegar ég var að verða kominn niður stigann byrjaði ég að sögn að líta skringilega út og fólk spurði mig hvort það væri allt í lagi með mig,“ sagði hún.
Hún sagðist síðan muna eftir að hafa gengið inn á veitingastað en allt hafi verið þokukennt og froða hafi verið í munnvikunum og hún hafi reynt að kyngja tungunni.
Hún sagði að ástæðan fyrir þessu hafi verið að hún hafi „drekkt“ sér með því að drekka of mikið vatn.
HuffPost hefur eftir Dr. Jonathan Parker, taugaskurðlækni, að það komi fyrir að fólk veikist vegna of mikillar vatnsdrykkju. Of mikil vatnsdrykkja geti haft áhrif á natríummagnið í líkamanum og ef það lækkar of mikið veikist fólk.
Hann sagði að rétt sé að hafa nokkur atriði í huga varðandi vatnsdrykkju til að forðast að drekka of mikið. Til dæmis líkamsstærðina, hvort fólk hafi verið úti og hvort það sé að svitna og losi sig þar með við vökva.
Hann ráðleggur fólki að veita því athygli hversu þyrst það er þegar það fær sér að drekka. Ekki sé til neinn einn mælikvarði, sem gildi fyrir alla, hvað varðar það hversu mikið fólk þarf að drekka.