Tap Hofgarða ehf. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2022, sem nú hefur verið sendur ársreikningaskrá, nemur 2,5 milljörðum króna. Það er mikil sveifla til hins verra frá árinu á undan, 2021, en þá var hagnaður fyrirtækisins 3,2 milljarðar króna. Hofgarðar stundar fjárfestingar i skráðum og óskráðum verðbréfum hér á landi og erlendis og er í eigu Helga Magnússonar.
„Árið var einstaklega óhagstætt þeim sem fjárfesta i hlutabréfum á Íslandi og í öðrum löndum. Gengi flestra skráðra félaga á Íslandi lækkaði og í sumum tilvikum var lækkunin mjög mikil eins og til dæmis í Marel hf. Félag mitt tapaði 500 milljónum króna á hlutabréfaviðskiptum í Marel. Það var tilfinnanlegt eftir gott gengi þar oft áður.“ segir Helgi.
„Þá tapaði félagið 350 milljónum á erlendum verðbréfum. Flestar fjárfestingar á árinu 2022 voru neikvæðar. Þá tók félagið á sig stóran skell vegna gjaldþrots Torgs sem gaf meðal annars út Fréttablaðið,“ segir Helgi ennfremur.
„Þeim sem stunda fjárfestingar í verðbréfum og fyrirtækjum, eins og ég hef gert síðustu 40 árin, er ljóst að það getur ekki alltaf gengið vel. Stundum verður að horfast í augu við tap. Ég hef verið heppinn í flestum tilvikum þótt sum ár séu erfið og endi í taprekstri. Hofgarðar skulda ekki neitt, fyrir utan skuld við mig, og bókfært eigið fé í árslok 2022 nemur 3,6 milljörðum króna þrátt fyrir taprekstur ársins 2022.“
Helgi Magnússon er stjórnarformaður Fjölmiðlatorgsins ehf., sem gefur út DV.