Ástarmál hinna frægu vekja jafnan athygli. Hverjum þau slá sér upp með, hvers vegna sambönd slitnuðu, dramatískar sögur um hjúskaparbrot og svona mætti áfram telja. Hvernig þau kynntust maka sínum vekur síður athygli, enda gerist það gjarnan með svipuðum hætti. Þeim var komið saman af sameiginlegum vinum, kynntust á tökustað eða á viðburði.
Leikarinn Mark Harmon, úr NCIS þáttunum, á þó ögn öðruvísi en engu að síður áhugaverða sögu um það hvernig hann kynntist konu sinni, Pam Dawber.
Það var sem svo oft áður, sameiginlegur vinur, sem vildi leiða þau saman og ætlaði að skipuleggja stefnumót. Mark kærði sig ekki um slíkt og vildi bara sleppa óþarfa flækjustigi og hreinlega heyra beint í konunni.
„Get ég bara fengið númerið og bara hringt? Svo ég gerði það. Ég fékk númerið, hringdi og fékk samband við símsvara. Svo ég byrjaði á því að skilja eftir skilaboð þar sem ég sagði: Við þurfum ekki að fara öll saman út. Við gætum skroppið á kaffihús eða eitthvað. Svo kom á daginn að hún var að hlusta á meðan ég las inn skilaboðin og þarna greip hún upp símann. Við fórum út þetta kvöld og höfum verið saman síðan.“
Þau giftu sig svo tveimur árum síðar, upp á daginn. Pam hefur líklega ekki beðið boðanna þegar hún áttaði sig á því að maðurinn sem var að hringja væri sá sami og hafði skömmu áður, þarna árið 1986, verið útnefndur kynþokkafyllsti maður í heimi af tímaritinu People. Samhliða titlinum sagði Mark í viðtali að hann væri ekki að leita sér að sambandi. Hann væri að bíða eftir hjónabandi sem endist.
„Ég er einkvænismaður í kjarnann og mér finnst fínt að vera einn eins og málin liggja,“ sagði Mark í viðtalinu. Hann bætti við að þegar hann gengi í hjónaband þyrfti það að vera almennilegt samband. Hann væri ekki að stunda sambönd sér til skemmtunar.
Hjónin eiga í dag tvö börn á fertugsaldri. Eldri sonurinn Sean er leikari og sá yngri, Ty, er handritshöfundur.
Mark segir lykilinn að hamingjusömu hjónabandi ekki vera neitt leyndarmál.
„Við hlæjum. Fólk verður að geta hlegið, talað og átt samskipti. Það er besti hlutinn. Sitjum við og ræðum nákvæmlega þetta? Nei. Kannski verður fólk bara að vera það heppið að finna rétta makann. Við eigum margt sameiginlegt en á sama tíma erum við mjög ólík.“