Fabio Grosso, þjálfari Lyon, varð fyrir árás í síðasta mánuði frá stuðningsmönnum Marseille fyrir leik liðanna í Ligue 1.
Stuðningsmenn Marseille köstuðu grjóti í átt að liðsrútu Lyon sem varð til þess að þessum stórslag var frestað.
Grosso varð fyrir slæmum meiðslum í þessari árás en hann var fluttur á sjúkrahús og þurfti á mikilli aðhlynningu að halda.
Fyrrum liðsfélagi Grosso, Gennaro Gattuso, segir að landi sinn hafi að lokum sloppið vel þar sem hann missti ekki annað augað.
Það þurfti að sauma 16 spor í andlit Grosso sem er talinn hafa fengið flösku í höfuðið á meðan árásin átti sér stað.
,,Fabio Grosso hefði getað tapað öðru auganu. Við ræddum saman eftir atvikið en hann var þá á leið á æfingu,“ sagði Gattuso.
,,Mér þykir leitt að þetta hafi átt sér stað, við þekkjumst vel og áttum góðan tíma saman á vellinum.“
,,Ég ræddi við Fabio um hversu heppinn hann var því ef þetta hefði farið í augað á honum þá væri hann sjónlaus. Hann var heppinn að lokum.“