Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurðað að tveggja barna móðir þurfi að greiða barnsföður sínum helming af innistæðu launareiknings síns miðað við stöðuna á reikningnum í desember árið 2021, þegar fólkið sleit samvistum. Framlög til styrktar börnunum vegna dýrra læknismeðferða þeirra runnu inn á reikninginn. Einnig er úrskurðað að konan þurfi að greiða manninum 2,7 milljónir króna í málskostnað.
Konan og maðurinn voru í óskráðri sambúð í 14 ár en þau eiga tvö börn. Yngra barnið er drengur sem fæddur er árið 2016. Hann greindist með krabbamein er hann var aðeins 11 mánaða gamall og hefur þurft að undirgangast viðamiklar læknismeðferðir, meðal annar þrisvar í Boston í Bandaríkjunum á árinu 2022, og samtals sjö ferðir þangað. Dóttir hjónanna er fædd árið 2009 og árið 2021 greindist hún einnig með góðkynja æxli. Staðan í dag er sú að dótturinni er batnað, drengurinn er einkennalaus en undir eftirliti og gæti þurft á frekari meðferðum að halda í framtíðinni.
Fjallað var um veikindi barnanna í tengslum við fjársöfnun þeim til handa og lögðu margir fé til stuðnings þeim, bæði vinir og vandamenn og lesendur fjölmiðla. Reikningur söfnunarinnar var launareikningur móðurinnar og stóð hann í röskum 32 milljónum króna í loks árs 2021.
Skömmu fyrir jól 2021 fór konan út af heimilinu með börnin. Sakaði hún manninn um ofbeldi, sem hann harðneitar fyrir, og bjó hún um tíma í leiguíbúðum uns hún festi kaup á íbúð í Hafnarfirði, þangað sem hún flutti með börnin.
Hún krafðist síðan fjárskipta vorið 2022 og var búið tekið til opinberra skipta til fjárslita í júní það ár. Þar sem ágreiningur var um skiptingu á eignum búsins var þeim vísað til úrslausnar héraðsdóms sem kvað upp úrskurð þann 30. október síðastliðinn.
Meginreglan við fjárslit sambúðarfólks í óskráðri sambúð er sú að hvort um sig fær þau verðmæti sem hann/hún hefur lagt til sambúðarinnar og ber hvort um sig jafnframt ábyrgð á sínum skuldum. Engu að síður hefur sú regla mótast í dómaframkvæmd að tekið er tillit til þess ef fjárhagsleg samstaða hafi myndast með aðilum á sambúðartíma.
Hvað þetta varðar heldur konan því fram að hún hafi aflað tekna heimilisins að mestu leyti og séð alfarið um börnin og heimilishaldið. Segir hún að gögn sýni að maðurinn hafi að mestu leyti verið á framfæri hennar frá því eldra barnið fæddist árið 2009. Því sé eðlilegt og rétt að allt söfnunarfé sem féll til vegna veikinda barnanna renni til hennar. Í því samhengi vísar hún einnig til þess að forræði yfir börnunum hafi lengst af eftir sambúðarslitin verið hjá henni og maðurinn haft takmarkaða umgengni við þau. Maðurinn höfðaði forræðismál fyrr á þessu ári og frá því í júní hefur fólkið haft sameiginlegt forræði yfir börnunum. Konan telur engu að síður að ummönnun barnanna sé nær eingöngu í hennar höndum ennþá og fjármunirnir á reikningi hennar, sem deilt er um, eigi að renna í kostnað vegna uppeldis þeirra og mögulegra læknismeðferða hvað soninn varðar, en ekki sem rekstrar- og neyslufé fyrir föður þeirra. Gerði hún af þeim ástæðum kröfu til þess að innstæðan á reikningi hennar rynni óskipt til hennar.
Deilur parsins um skiptingu bússins eru margvíslegar en hér er staðnæmst við það sem tengist beint eða óbeint fjársöfnun vegna veikinda barnanna, sem almenningur lagði lið. Því tengist krafa konunnar um að maðurinn greiði henni tæplega eina milljón króna í kostnað vegna húsaleigu, þar sem hún neyddist til að vera á leigumarkaði með börnin um nokkurra mánaða skeið áður en hún keypti íbúð í Hafnarfirði fyrir söfununarféð, að hluta.
Konan segist hafa flúið heimilið með börnin rétt fyrir jólin 2021 vegna ofbeldis mannsins. Ekki hafi komið til greina að fara í Kvennaathvarfið vegna veikinda sonarins á þeim tíma. Maðurinn hafnar ásökunum um ofbeldi og segir það hafa verið ákvörðun konunnar að flytja af heimilinu og beri hann enga ábyrgð á því.
Þess má geta að konan hefur í opinni Facebook-færslu, sem hún birti skömmu eftir að umræddur úrskurður héraðsdóms í fjárskiptamálinu birtist, farið hörðum orðum um manninn og sakað hann um ofbeldi. Þessar ásakanirvoru ekki eiginlegt umfjöllunarefni úrskurðarins hjá héraðsdómi nema óbeint hvað viðvíkur kröfunni um greiddan kostnað vegna húsaleigu.
Maðurinn gerir kröfu um helming af innstæðunni á reikningi konunnar eins og staðan var á reikningnum í desember árið 2021. Einnig gerir hann kröfu um helmingseign í íbúðinni sem konan keypti í Hafnarfirði í kjölfar sambúðarslitanna, að hluta fyrir söfnunarfé.
Maðurinn segir að konan horfi framhjá því í málflutningi sínum að foreldrar hans hafi styrkt hann mjög rausnarlega í gegnum tíðina og það vegi mikið í eignum bússins. Hann viðurkennir að hafa verið tekjulágur á tímabili enda starfað sem verktaki og verið réttindalaus hvað varðar greiðslur er hann varð atvinnulaus vegna COVID-faraldursins.
Hann minnir á að hann hafi núna sameiginlegt forræði yfir börnunum með konunni og komi því til með að ala önn fyrir þeim til jafns á við hana í framtíðinni.
Í meginatriðum úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur föðurnum í hag og móðurinni í óhag. Krafa hans um helmingshlutdeild í innistæðu á reikningi hennar er tekin til greina en kröfu hennar um að hún sé ein eigandi að innistæðunni er hafnað.
Hins vegar er kröfu mannsins um helmingshlutdeild í íbúðinni sem keypt var að hluta fyrir söfnunarféð vísað frá dómi.
Til samanburðar má geta þess að konan gerði kröfu um helmingshlutdeild í innistæðu á reikningi á nafni mannsins þar sem hún hefði í gegnum tíðina lagt stórfé inn á þann reikning er varðaði sameiginlegan rekstur þeirrra. Dómari hafnaði þeirri kröfu og studdist þar við meginregluna um fjárskipti við sambúðarslit, þar sem hvor aðili heldur sínu.
Hins vegar lítur dómarinn á reikning konunnar sem söfnunarreikning í þágu barnanna eingöngu. Inn á reikninginn runnu þó aðrir fjármunir, meðal annars laun hennar.
Niðurstaðan er því sú, meðal annars, að konan þarf að greiða manninum helming af innistæðu reiknings hennar eins og hann stóð í árslok 2021, eða rúmlega 15 milljónir króna. Einnig þarf hún að greiða honum 2,7 milljónir króna í málskostnað. Kröfu konunnar um endurgreiddan kostnað vegna húsaleigu er hafnað.
Samkvæmt heimildum DV er líklegt að málinu verð áfrýjað til Landsréttar en það liggur þó ekki fyrir á þessari stundu.