Matthías Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna knattspyrnudeildar Gróttu. Matthías gerir þriggja ára samning við deildina en hann hefur síðustu tvö ár verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals. Matthías á að baki glæstan fótboltaferil og 196 leiki í efstu deild á Íslandi en hann lék lengst af með Val.
Matthías hlakkar til að að hefja störf hjá félaginu: „Ég er mjög spenntur fyrir því að fá tækifæri til að þjálfa svona flottan klúbb eins og Gróttu. Hópurinn er flottur með góðan kjarna af leikmönnum sem hafa spilað lengi saman og efnilegar stelpur að koma upp. Einnig er stefna félagsins mjög spennandi og umgjörðin alveg til fyrirmyndar. Ég hlakka mikið til að hitta hópinn og komast út á æfingasvæðið.“
Við sama tilefni skrifaði Melkorka Katrín Flygenring Pétursdóttir undir tveggja ára samning sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. Melkorka hefur síðasta árið verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Gróttu ásamt því að vera aðalþjálfari 5. flokks kvenna og heldur hún því góða starfi áfram hjá deildinni. Melkorka er á lokaári meistaranáms í sjúkraþjálfun og hefur lokið UEFA B þjálfararéttindum.
Melkorka er spennt fyrir framhaldinu: „Ég er gríðarlega ánægð að hafa skrifað undir nýjan samning og hlakka til að vinna áfram í því frábæra umhverfi sem Grótta hefur upp á að bjóða. Ég hlakka mikið til að vinna áfram með leikmönnum og fólkinu í kringum liðið. Einnig er frábært að hafa fengið Matta inn í þetta og ég hlakka til samstarfsins. Það eru spennandi tímar framundan á Nesinu!“