Maðurinn var meðal annars ákærður fyrir að hafa þann 18. febrúar 2021 stolið iPhone-farsíma að áætluðu verðmæti 100 þúsund krónur í Langholtskirkju. Hann var svo ákærður fyrir að stela súkkulaðistykkjum úr Nettó í Mjódd í júlí 2021 að verðmæti 3.900 krónur.
Brotin voru fleiri. Samkvæmt ákæru stal hann Trek Skye-fjallahjóli úr hjólageymslu í Reykjavík, en verðmæti hjólsins var tæpar 100 þúsund krónur.
Hann er svo sagður hafa brotist inn í aðra geymslu þar sem hann stal meðal annars frauðsverðum, leðurvesti og kaffivél. Um svipað leyti er hann sagður hafa stolið úr búningsklefa í ÍR-heimilinu í Austurbergi iPhone-farsíma, íþróttatösku og íþróttafatnaði.
Þá var hann ákærður fyrir að fara inn í stigahúsnæði Klassíska listdansskólans í Mjódd þar sem hann stal Xiaomi-rafhlaupahjóli að ætluðu verðmæti 59 þúsund krónur.
Maðurinn sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll. Maðurinn var sakfelldur í öllum ákæruliðum en með brotum sínum rauf hann skilorð dóms sem hann hlaut sumarið 2020. Þótti hæfileg refsing fjögurra mánaða fangelsi.