Miklar jarðhræringar hafa verið á svæðinu að undanförnu og varð skjálfti, 4,2 að stærð rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Upptök hans voru um 1,2 kílómetra vestur af Bláa lóninu. Er virknin á svæðinu túlkuð sem kvikuhlaup.
Sveinn Gauti rifjar upp í pistli sem hann skrifar á Vísi að í desember árið 2019 hafi miklar hamfarir orðið á eyjunni Whakaari úti fyrir ströndum Nýja-Sjálands. Töluvert af ferðamönnum var á svæðinu og létust alls 22 þegar sprengigos byrjaði skyndilega.
Bendir hann á að nú sé tekist á um ábyrgð á þessum harmleik fyrir dómstólum á Nýja-Sjálandi. Sumir vilji meina að sérfræðingarnir hafi brugðist en aðrir að græðgi ferðaþjónustufyrirtækja sé um að kenna.
„Eftir stendur að bæði sérfræðingarnir og ferðaþjónustufyrirtækin brugðust, 22 létust og 25 særðust illa. Margt af því fólki vissi ekkert um aukinn óróa á svæðinu,“ segir hann.
Sveinn Gauti nefnir svo stöðuna á Reykjanesi og bendir á að sérfræðingar virðist sammála um að kvika sé að safnast fyrir á um fjögurra kílómetra dýpi.
„Mikil óvissa virðist vera um það hvað ferð sé á kvikunni og hvert hún muni leita. Það er þó öllum ljóst að nú er mjög aukin hætta á eldvirkni nærri Svartsengi,“ segir hann og nefnir að nálægt miðju núverandi virkni sé Bláa lónið – sem jafnan er stútfullt af ferðamönnum allt árið um kring.
„Forsvarsfólk Bláa Lónsins hefur verið spurt undanfarna daga hvort óhætt sé að baða sig í lóninu. Þar stendur ekki á svörum. Nægur fyrirvari verður til að rýma lónið komi til eldgoss á svæðinu.“
Sveinn tekur fram að hann sé ekki eldfjallafræðingur en hann veltir þessari staðhæfingu engu að síður fyrir sér.
„Það hefur gosið þrisvar á undanförnum árum á Reykjanesi. Aldrei tókst að spá fyrir um upphaf goss og engin viðvörun var um að gos væri við það að hefjast. Hvernig er staðan öðruvísi núna. Af hverju treystir fólk sér til að gefa nokkurra klukkutíma viðvörun þrátt fyrir að það hafi ekki tekist í Fimmvörðuhálsi, ekki tekist í þrígang í Fagradalsfjalli og ekki á Nýja Sjálandi? Er hægt að segja með fullri vissu að það geti ekki gosið þarna fyrirvaralaust?“
Sveinn segir að ef kröftugt gos kemur upp undir Bláa lóninu tæki þá frá einhverjum sekúndum upp í tvær til þrjár mínútur fyrir kvikuna að sjóða allt vatnið í lóninu.
„Ef fólk er í lóninu þá er ekki spurt að leikslokum. Það yrðu mestu hamfarir á Íslandi á lýðveldistímanum og ennþá verra en á Nýja Sjálandi. Það gera allir mistök. Sérfræðingar líka.“
Sveinn segir að ekki sé hikað við að loka vegum í vondu veðri og þá séu hús rýmd á hverju ári vegna snjóflóðahættu. Þá hafi verið farið í allskonar fyrirbyggjandi aðgerðir á Covid-tímanum. Í ljósi þess telur Sveinn eina vitið að loka Bláa lóninu þar til hrinan gengur yfir.
„Ekki veit ég hverjar líkurnar eru á því að það gjósi. En það er alveg ljóst að það er ekki útilokað. Það er líka alveg ljóst að ef að gýs þá geta afleiðingarnar orðið hræðilegar ef ekki hefur verið gripið til aðgerða.“
Þá nefnir Sveinn að á heimasíðu Bláa lónsins séu engar upplýsingar um aukna eldvirkni. Ferðamenn sem kaupa sér miða í lónið séu flestir grunlausir um hættuna sem því fylgir.
„Ég [skora] á forsvarsmenn Bláa Lónsins að hætta að láta eins og eldvirknin sé ekki vandamál og að engin áhætta fylgi henni og loka lóninu næstu vikurnar þar til ástandið er orðið eðlilegt aftur. Ég skora líka á yfirvöld að tryggja að Bláa Lóninu verði gert að loka tímabundið, rétt eins og gert var í Covid og gert er á hverju ári þegar hætta af völdum annars konar náttúruhamförum blasir við. Við setjum það ekki í hendur íbúa hvenær eigi að rýma snjóflóðahættusvæði og það sama gildir núna. Gerum ekki sömu mistök og í Nýja Sjálandi! Lærum af þeirra mistökum gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að Ísland sé öruggt land til að heimsækja og komum í veg fyrir mögulegar hörmungar.“