Íþróttavikan kemur út alla föstudaga á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góðan gest og þessa vikuna var Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV, gestur.
Gunnar er mikill Arsenal maður og er sáttur með tímabilið það sem af er.
„Byrjunin er framar vonum. Maður var smá smeykur eftir síðasta tímabil, hvort það myndi leiða inn í þetta, en það er bara alls ekki þannig. Við erum búnir með flest erfiðustu liðin og nú taka við þessi auðveldari stig,“ sagði hann í þættinum.
„Arteta hefur verið að finna sitt allra besta lið. Thomas Partey er búinn að vera meiddur, hann var lengi að koma Gabriel inn í þetta og var að reyna ýmislegt til að byrja með. Þetta er á réttri leið.“
Gunnar vill þó sjá félagið sækja framherja.
„Mér finnst Arsenal vanta meiri djöful inn í boxið. Ég hef til dæmis talað um Dusan Vlahovic. Osimhen væri auðvitað draumur.“
Vonir fyrir þetta tímabil voru teknar fyrir og til að mynda hvort liðið gæti unnið Meistaradeildina. Var þá rifjaður upp úrslitaleikurinn frá því 2006 þegar Arsenal tapaði á grátlegan hátt fyrir Barcelona.
„Það er síðasta skiptið sem ég grét yfir fótboltaleik, sparkaði í sjónvarp og hurðir.“