Stefán Einar birti færslu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann greindi frá því að starfsmenn Morgunblaðsins og annarra miðla Árvakurs hefðu komið saman í gær í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins.
„Þetta er sterkur og einbeittur hópur fólks sem heldur úti stærsta vefmiðli landsins,“ sagði Stefán Einar meðal annars í færslu sinni.
Kolbeinn Tumi var ekki lengi að mæta í athugasemdakerfið og mótmæla þessari fullyrðingu Stefáns Einars.
„Til hamingju með afmælið. Mbl er mjög flottur vefmiðill en hefur ekki verið sá stærsti undanfarin ár heldur í humátt á eftir Vísi,“ sagði Kolbeinn Tumi.
Stefán Einar stóð fastur á sínu.
„Það er rangt. Mbl.is er raunar langstærsti vefur landsins og skiptir þá engu hvort Gallup birti sína lista í því formi sem raun ber vitni,“ sagði Stefán Einar og vísaði í flettingar vefjanna tveggja. Þar er Mbl.is vissulega stærri en minni munur er á fjölda notenda.
„Stærð vefs af þessu tagi er aðeins hægt að mæla út frá umferðinni sem um hann fer. Mbl er að jafnaði með 30-40% meiri umferð á degi hverjum (smelli) heldur en Vísir og ég undra mig alltaf jafn mikið á því að Gallup skuli miða við meðalnotendafjölda. Þar eru þessir tveir vefir á mjög svipuðum slóðum og munar ofast nær engu. En á hinn mælikvarðann, sem segir til um raunverulega notkun, þá er himinn og haf á milli,“ sagði Stefán Einar.
Kolbeinn Tumi lagði ekki árar í bát og sagði Vísi víst vera stærri.
„Gallup sér um samræmda vefmælingu í dag og Modernus gerði þar á undan. Þar hefur stóri mælikvarðinn í langan tíma og ágreiningslaust verið notendafjöldi en ekki flettingar. Flestir landsmenn lesa því Vísi þó Mbl komi í humátt á eftir. Sannkallað tveggja turna tal. En þið standið á glæsilegum tímamótum sem þið megið sannarlega verið stolt af. Fjölmiðlaáhugi minn kviknaði ekki síst við lestur íþrótta í Morgunblaðinu í æsku. Ítreka hamingjuóskir,“ sagði Kolbeinn Tumi.
Stefán átti þó lokaorðið og véfengdi túlkun Kolbeins Tuma.
„Þakka þér kveðjuna. Ég verð þó að leyfa mér að fullyrða að það sé ekki ágreiningslaust hvernig þessari mælingu er háttað. Víðast hvar í heiminum er „stærð“ vefs vegin og metin út frá þeirri umferð sem hann skapar. Það er það sem auglýsendur horfa til og ættu réttilega að gera.
Hér má sjá tölur Gallup yfir aðsóknarmestu vefi landsins. Þess má geta að DV er þriðji stærsti vefur landsins samkvæmt öllum mælikvörðum en miðað við starfsmannafjölda er vefurinn hlutfallslega sá langstærsti.