Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og íbúi í Grindavík, er ýmsu vanur eftir jarðhræringar á Reykjanesskaganum á síðustu árum. Í nótt tók þó botninn úr. „Þetta er nú meira en maður hefur upplifað hingað til,“ segir hann.
Skjálftavirkni á Reykjanesskaga jókst upp úr miðnætti og hafa fleiri hundruð skjálftar mælst á svæðinu síðan þá. Stærsti skjálftinn, 4,2 að stærð varð rétt fyrir klukkan fjögur í nótt og voru upptök hans um 1,2 kílómetra vestur af Bláa lóninu. Eðli málsins samkvæmt fannst skjálftinn vel í byggð.
Að sögn Veðurstofu Íslands er virknin túlkuð sem kvikuhlaup á um fjögurra til fimm kílómetra dýpi en engar vísbendingar eru um gosóróa að svo stöddu.
Páll var andvaka í nótt og birti hann nokkrar færslur á Facebook-síðu sinni.
„Þetta er nú meira en maður hefur upplifað hingað til. Hvílík andskotans læti,“ sagði hann og bætti svo við í annarri færslu:
„Hef aldrei á síðustu árum fundið fyrir svona áköfum og staðbundnum skjálftum.“
Páll sagði svo í viðtali við Vísi í morgun að skjálftarnir hafi aldrei truflað hann í gegnum tíðina. Núna standi honum þó ekki á sama. „Þetta er í fyrsta sinn sem manni er svolítið órótt,“ segir Páll við Vísi og bætir við að það sé óþægilegt hvað upptök skjálftanna eru nálægt byggð.