Suður-Afríska leikkonan Charlize Theron er í forsíðuviðtali nóvembertölublaðs Town & Country, en þar opnar hún sig um áfall barnsáranna, sem hún hefur sjaldan greint frá opinberlega, þegar hún varð vitni að því að móðir hennar skaut drukkinn föður hennar til bana.
Leikkonan, sem er 48 ára, var aðeins 15 ára gömul þegar faðir hennar Charles Theron réðst inn á heimili fjölskyldunnar nálægt Jóhannesarborg í Suður-Afríku og skaut nokkrum sinnum í gegnum svefnherbergishurð, en Theron og móðir hennar, Gerda, voru inni í svefnherberginu. Gerda greip eigin skammbyssu, hóf skothríð í hefndarskyni og drap eiginmann sinn með dóttur þeirra í taugaáfalli sem vitni.
Í viðtalinu greinir Theron ítarlega frá málinu og segir að eftir þetta hafi líf hennar breyst til frambúðar. Aðspurð um hvort atvikið hafi hvatt hana til að berjast gegn ofbeldi gegn konum, svarar hún játandi. „En ég held að þetta sé miklu flóknara en að hafa bara eina nótt af áföllum í lífi þínu. Kynbundið ofbeldi er heimsfaraldur. Það er erfitt að vera ekki meðvitaður um þá staðreynd.“
Eftir rannsókn á skotárásinni var talið að um sjálfsvörn móður Theron hefði verið að ræða og var móðirin ekki ákærð.
“Faðir minn var mjög veikur maður, hann var alkóhólisti allt mitt líf. Ég þekkti hann bara sem alkóhólista. Þetta fjölskylduofbeldi, svona ofbeldi sem á sér stað innan fjölskyldunnar, er reynsla sem ég deili með mörgum öðrum. Ég held að því meira sem við tölum um þessa hluti, því betur gerum við okkur grein fyrir því að við erum ekki ein. Ég held að fyrir mig hafi þetta bara alltaf verið að þessi saga snýst í raun um að alast upp með fíkli og hvað slíkt gerir manni.“
Theron segir að þegar hún var ungt barn hafi hún alltaf litið á fjölskyldulíf sitt sem „vonlausar aðstæður“.
„Ég held að fjölskyldan okkar hafi verið ótrúlega óheilbrigð. Og ég tel að þetta ástand hafi valdið okkur öllum örum andlega. Auðvitað vildi ég að það sem gerðist þessa nótt hefði aldrei gerst.“
Theron hefur áður sagt móður sína hafa hjálpað henni í að mótast í sterka og hugrakka konu.
Theron greinir einnig frá því í viðtalinu að hún ólst upp í Suður-Afríku á tímum þar sem landið var undir aðskilnaðarstefnu og áhrifum alnæmis í samfélaginu, sem enginn á þeim tíma hafði þekkingu á.
„Ég var um 10 ára og fólk í kringum mig var að deyja og margir voru hræddir. Við vitum núna að þetta var HIV og alnæmi, en það voru ekki margir sem höfðu þessar upplýsingar þá. Þessir atburðir höfðu áhrif á mig á unga aldri, sem hafa fylgt mér síðan, jafnvel meiri áhrif en þetta eina kvöld hafði.“
Theron stofnaði Africa Outreach Program árið 2007 og í kórónuveiruheimsfaraldrinum hóf hún herferðina #TogetherForHer sem barðist gegn heimilisofbeldi í Afríku og á heimsvísu, og gaf Theron hálfa milljón dala til að koma herferðinni af stað.
„Fólk var beðið um að halda sig heima, og í tilvikum heimilisofbeldis, vera heima með ofbeldismönnum sínum. Það var kvennamorð að gerast í Suður-Afríku og enginn var í raun að tala um það.“