fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Segir ríkisstjórnina komna á endastöð – VG fengi þrjá þingmenn og öll áform Katrínar í uppnámi

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 2. nóvember 2023 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óboðlegt er og grímulaus afskræming lýðræðisins að formaður flokksins sem mælist minnstur núverandi þingflokka í könnunum leiði ríkisstjórnina. Í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að Katrín Jakobsdóttir sé rúin trausti og takist engan veginn að halda friði á stjórnarheimilinu eins og meðal annars megi sjá af þeim einstaka atburði sem varð í síðustu viku þegar utanríkisráðherra sniðgekk forsætisráðherra er tekin var stórpólitísk ákvörðun um afstöðu Íslands til hitamáls á alþjóðlegum vettvangi. „Fróðir menn telja að aldrei í stjórnmálasögu Íslands hafi forsætisráðherra verið sýnd önnur eins vanvirðing.“

Ólafur bendir á að fylgi ríkisstjórnarflokkanna minnkar enn og er nú komið niður í 34 prósent samtals samkvæmt nýtti skoðanakönnun Gallups þar sem 5.000 svör fengust. „Svo stóra könnun verður að taka alvarlega. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur verið á stöðugri niðurleið síðustu 12 mánuðina í öllum skoðanakönnunum, bæði Gallups og annarra sem gera fylgiskannanir. Hér er því ekki um neinar tilviljanir eða frávik að ræða,“ skrifar Ólafur.

Samkvæmt Gallup fengi VG einungis þrjá þingmenn í stað þeirra átta sem flokkurinn náði í síðustu kosningum. „Ef þetta yrði niðurstaða kosninga þá fengi flokkurinn einungis Katrínu, Guðmund Inga og Svandísi kjörin á þing en engan fulltrúa úr landsbyggðarkjördæmunum.“

Sem fyrr er Samfylkingin er langstærsti flokkurinn í könnuninni með tæp 30 prósent en stuðningur Sjálfstæðisflokksins er í kringum 20 prósent. „Þessar tölur eru að festast í sessi. Gallup áætlar fjölda þingmanna sem hvert framboð fengi: Samfylkingin næði 21 þingmanni og bætti við sig 15 frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn næði 14 sætum en er nú með 17. Framsókn fengi einungis fjóra menn kjörna en hefur nú 13 þingmenn og þarf að horfast í augu við algert hrun. Píratar fengju sex þingmenn kjörna, Viðreisn og Miðflokkurinn 5 þingmenn hvor flokkur, Flokkur fólksins fjóra, Vinstri græn þrjá eins og fyrr segir og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára næði einum kjördæmakjörnum fulltrúa. Samkvæmt þessu mælist flokkur forsætisráðherra með minnst fylgi þeirra átta þingflokka sem nú eiga sæti á Alþingi.“

Ólafur telur að áform Katrínar um að taka við forstjórastöðu í alþjóðlegri stofnun eð loknu þessu kjörtímabili kunni nú að vera í uppnámi og vísar þar til þess að máttleysi hennar í að hafa taumhald á sínum eigin utanríkisráðherra hafi sett strik í reikninginn.

Hann telur líkur hafa aukist á að ríkisstjórnin lifi ekki út kjörtímabilið, kannski ekki út þennan vetur en að það breyti ekki því að Katrín sé á förum úr pólitík. Þá taki Svandís Svavarsdóttir við flokknum og sé líklegt til að færa hann til vinstri og keppa við Sósíalistaflokk Gunnars Smára Egilssonar um kjósendur yst á vinstri vængnum en nú sé flokkurinn hvorki vinstri né grænn og sé ekki einu sinni í miklu vinfengi við Garðabæ lengur, en grínast hefur verið það að VG standi nú fyrir „Vinir Garðabæjar“ en ekki Vinstri græn.

Ólafur telur engan veginn einsýnt hvaða flokkar fari saman í ríkisstjórn eftir næstu kosningar þótt allt bendi til þess að Kristrún Frostadóttir muni leiða hana. Eins og staðan sé nú geti hún myndað þriggja flokka stjórn með Viðreisn og Pírötum eða komið öllum á óvart og myndað tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Náttfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt