Leikkonan fræga, Brooke Shields, greindi frá því á dögunum að hún hafi endað á sjúkrahúsi eftir að fá flogakast. Þetta átti sér stað í september en hún greindi frá þessu í viðtali í vikunni. Flogið var svo kallað grand mal, eða alflog.
Hún var að bíða eftir leigubíl þegar samferðamenn veittu því eftirtekt að hún var ekki eins og hún átti að sér. Sjálf tók Brooke ekki eftir neinu og fullvissaði nærstadda um að hún væri í góðu lagi. Eftir leigubílaferðina kom hún að veitingastað og furðaði sig þá á því að starfsmenn komu hlaupandi í átt að henni, á sama tíma hneig hún niður og missti meðvitund.
„Mér sortnaði fyrir augum. Síðan urðu hendurnar mínar máttlausar og ég féll með höfuðið á undan á vegginn.“
Læknar og vitni greindu henni síðar frá því að hún hafi verið með mörg einkenni grand mal flogs. Hún hafi froðufellt, reynt að kyngja tungunni sinni og blánaði.
„Það næsta sem ég man var þegar ég var flutt inn í sjúkrabíl. Ég var með súrefnisgrímu.“
Það var leikarinn Bradley Cooper sem fylgdi henni á sjúkrahúsið. Þar fékk hún að heyra að hún hefði drukkið alltof mikið vatn og væri komin með natríumskort.
„Ég hafði skolað allt úr kerfinu mínu, drekkt sjálfri mér. Ef þú hefur ekki nóg af natríum í blóði eða þvagi þá geturðu fengið flog.“
Hvað er alflog?
Blóðnatríumlækkun er ástand þar sem gildi natríums í blóðinu eru óvenjulega lágt, en það veldur því að vatn fer inn í frumur líkamans og þær belgjast út. Ástandið getur orsakast af undirliggjandi kvilla, af lyfjum eða með óhóflegri vatnsdrykkju. Einkenni geta verið ógleði, höfuðverkur, ruglingur, þróttleysi og í alvarlegum tilvikum – flog.
Grand mal flog kallast líka alflog á íslensku. Um er að ræða stórt flog sem hefur áhrif á bæði heilahvel. Það lýsir sér gjarnan þannig að vöðvarnir í öllum líkamanum stífna í skamma stund, þess vegna hefur þetta líka kallast starfaflog. Því næst getur líkaminn tekið að hristast eða kippast til. Einstaklingur í alflogi missir meðvitund, hrópar, fellur til jarðar eða fær vöðvakrampa eða -kippi.
Ef einstaklingur nærri þér sýnir einkenni um alflog þá er ráðlagt að leggja hann á jörðina og koma í læsta hliðarlegu til að auðvelda andardrátt. Gættu þess að ekkert sé nærri sem er hart eða beitt sem gæti valdið skaða ef einstaklingurinn fer að kippast til. Gott er að setja eitthvað mjúkt undir viðkomandi. Sé einstaklingurinn með gleraugu skaltu taka þau af honum sem og að losa um allt sem gæti þrengt að hálsi eða hindrað öndun. Ávallt skal hafa samband við neyðarlínu ef einhver sýnir einkenni alflogs lengur en í fimm mínútur, skv. viðmiðum bandarísku sóttvarnarstofnunarinnar, CDC.