Óvíst er hvort kona sem kallar sig Jöklarósin hafi lesið frétt DV frá í gær þar sem áströlsk kona leitaði á náðir netverja til að finna myndarlegan viðskiptavin hennar, en í frétt DV sagði: „Ef Bændablaðið væri gefið út í Ástralíu hefði auglýsing þar líklega skilað árangri!“
Sjá einnig: Kolféll fyrir ókunnugum viðskiptavini – Leitaði á náðir netverja til að finna gaurinn
Líklega ekki þar sem Bændablaðið þarf jú tíma til umbrots og prentunar, en í nýjasta blaðinu sem kom út í dag auglýsir Jöklarósin eftir manni til undaneldis. Kröfurnar eru allnokkrar og vonum við að einhver telji sig standa undir þeim og sendi Jöklarósinni skeyti:
„Kona á barneignaraldri óskar eftir vænum grip til undaneldis. Þarf að vera ljúfur og góður, hugulsamur, heiðarlegur, heill á geði, léttur og kátur, einlægur, sýna frumkvæði við og við, fjárhagslega sjálfstæður, laghentur og natinn. Ekki væri verra að viðkomandi væri í hærra lagi, sterklega byggður, bæri sig vel og helst með fallega heiðblá augu. Þeir sem telja sig bera þessa lýsingu mega hafa sambandi á netfanginu joklarosin@gmail.com. Takk fyrir.
Sjá einnig: Borgardrengur leitar að kvonfangi – „Einkar vænlegur til undaneldis, óvenju framfallegur og hreyfingagóður“