„Hann hefur síðan veist nokkrum sinnum að mér með hróp og svívirðingu og látið dólgslega fyrir utan heimili mitt og húsið þar sem Sósíalistaflokkurinn hefur aðsetur. Milli þess sem hann sakar sósíalista um stórkostlega glæpi brestur hann í lofræður um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna sérstaklega,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður stjórnar Samstöðvarinnar, um eltihrelli í færslu á Facebook.
Segir Gunnar Smári að þegar hann og fleiri hafi mætt á Austurvöll í kjölfar sölunnar á Íslandsbanka „til að krefjast afsagnar Bjarna Benediktssonar af stól fjármálaráðherra, sem hann síðan drattaðist til að yfirgefa án þess að skammast sín eða biðjast afsökunar„, hafi umræddur maður mætt á Austurvöll og lýst yfir stuðningi við Bjarna.
„Ég leiði þennan mann hjá mér og hefði ekki vitað af þessum status nema sökum þess að hann taggaði mig í póstinn,“ segir Gunnar Smári um færslu sem maðurinn birti á Facebook.
Í færslunni birtir maðurinn mynd af númerslausum bíl og taggar Gunnar Smára í færsluna, þar sem hann kallar Gunnar Smára „klikkaði lati kommúnista maður.“ Segir maðurinn Gunnari Smára að fara að vinna og borga sína reikninga, segir hann aldrei vinna og lifa á skattgreiðendum.
„Þarna er hann að hrópa að númerslausum bíl og finnur í honum einhverjar stórkostlegar sannanir fyrir ómennsku minni og dugleysi sósíalismans. Þetta er náttúrlega dásamlega vitlaust, en jafnframt lýsandi fyrir þennan mann og annað fólk sem áróðursmeistarar Valhallar eru að trylla með ofstopa sinum og botnlausri mannfyrirlitningu,“ segir Gunnar Smári.
Í færslunni sem maðurinn taggar einnig Sósíalistaflokk Íslands í, segir maðurinn Gunnari SmárA að færa bílinn þar sem hann taki páss. Og segir honum að „taktu klikkuðu stalínista Sólveigu Önnu og allt fólkið í helvítis Sósíalistaflokki Íslands með þér og farðu í Sorpu. Þar eigið þið öll heima.“
Ég pósta þessu hér í von um að eigandi þessa bíls bjargi honum áður en maðurinn fer að berja hann og eyðileggja, í stjórnlausri herferð sinni gegn alheimskommúnismanum, drifinn áfram af herlúðrum Brynjars Níelssonar, Hannesar Hólmsteins, Björns Bjarnasonar og annarra herforingja Bláu handarinnar.