Kylfingar á Íslandi hafa aldrei verið fleiri en nú. Þann 1. júlí 2023 voru 24.201 félagsmenn skráðir í golfklúbba víðs vegar um landið.
Þetta kemur fram í fréttabréfi sem Golfsambandið sendir út frá sér í dag.
Eru iðkendur í golfi nú farnir að nálgast þann fjölda sem iðkar knattspyrnu á Íslandi, rúmlega 28 þúsund iðkendur eru í fótbolta en rúmlega 24 þúsund iðkendur eru í golfi.
Árið 2019 eða fyrir fimm árum voru tæplega 17.900 kylfingar skráðir í golfklúbba landsins – og hefur þeim fjölgað um tæplega 6.400 á síðustu fimm árum – sem er 35% aukning.
Knattspyrnan og golfið er í sérflokki eins og sjá má í tölum hér að neðan.
Fjölmennustu sérsamböndin eru:
Knattspyrnusamband Íslands (28.400).
Golfsamband Íslands (24.200).
Fimleikasamband Íslands (15.400).
Landssamband Hestamanna (12.500).
Körfuknattleikssamband Íslands (8.700).
Handknattleikssamband Íslands (7.900).
Skotíþróttasamband Íslands (6.200).
Badmintonsamband Íslands (4.800).
Sundsamband Íslands (3.800)
Frjálsíþróttasamband Íslands (3.600)