Hollywood leikarinn Dwayne „The Rock“ Johnson vakti mikla athygli fyrir búninginn sinn á Hrekkjavökunni í gær. Hann klæddi sig sem knattspyrnugoðsögnin David Beckham.
Johnson klæddi sig í Manchester United treyju og setti á sig hárkollu sem líktist hári Beckham er hann var upp á sitt besta.
Birti hann myndir af þessu og vakti um leið mikla athygli. Beckham setti meira að segja athugasemd undir færslu Johnson.
„Ég hélt að ég væri að horfa í spegil. Þú lítur vel út maður en gætir þurft stærri treyju,“ skrifaði Beckham.
Þó margir hafi hrósað Johnson fyrir búningavalið voru þó nokkrir smámunasamir netverjar sem settu út á hann.
Gagnrýnin sneri aðallega að því að Johnson klæddist núverandi treyju United en ekki þeirri sem Beckham klæddist á sínum tíma. Þá var sett út á að Adidas merkið vantaði á treyjuna.
„Ef ég á að vera hreinskilinn er þetta skelfilegt,“ skrifaði einn netverjinn.
„Þetta er ekki alvöru treyja og hárið er frá því Beckham var hjá Real Madrid,“ skrifaði annar gagnrýninn notandi.