fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Samflot SA og ríkisstjórnarflokka

Eyjan
Fimmtudaginn 2. nóvember 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athygli vakti nýlega þegar Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins greindi frá því að hann hefði lagt til við Samtök atvinnulífsins að erlendir óháðir sérfræðingar yrðu fengnir  til þess að gera athugun á kostum þess og göllum að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Skömmu áður hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, ásamt þingmönnum úr röðum Samfylkingar og Pírata, lagt fram tillögu á Alþingi um að þjóðin sjálf fengi að ákveða hvort viðræður yrðu hafnar að nýju við Evrópusambandið um fulla aðild Íslands. Formaður Samfylkingar er þó ekki á meðal flutningsmanna.

Og nú hafa Neytendasamtökin krafist samstöðu ríkisvalds og verkalýðshreyfingar um óháða úttekt á sér íslensku vaxtastigi.

Samræmt andsvar

Þessar tillögur lúta að mikilvægum almannahagsmunum. Þær fela í sér spurningar um breytingar. Markmiðið með þeim er að færa Ísland fram á við, draga úr ójöfnuði og styrkja samkeppnisstöðu landsins.

Ekkert er eðlilegra en skiptar skoðanir séu um tillögur af þessu tagi. En þær kalla umfram allt á málefnalega rökræðu, sem leggja má í dóm kjósenda.

Tillögurnar koma hver úr sinni átt og eru að því leyti ótengdar. Það breytir ekki hinu að sú óháða athugun, sem Starfsgreinasambandið leggur til, yrði mikilvægt umræðuskjal fyrir þjóðina ef hún fengi leyfi til að ákveða sjálf hvort stefnt yrði að slíkri kerfisbreytingu.

Að því leyti eru tillögurnar hluti af sama viðfangsefni. Í því ljósi er samræmt andsvar við þeim einkar athyglisvert.

Varðstaða um ójöfnuð

Flest bendir til þess að Samtök atvinnulífsins ætli að þegja tillögu formanns Starfsgreinasambandsins í hel.

Óháðar upplýsingar eru ekki taldar æskilegar.

Formaður Starfsgreinasambandsins hefur bent á þann ójöfnuð, sem fylgir þreföldu gjaldmiðlakerfi þar sem vaxtamismunur er meira en tvöfaldur. Þetta bitnar hart á umbjóðendum hans. Og bændur hafa lengi mátt þola langvarandi afleiðingar þessa misréttis.

Þessi ójöfnuður bítur líka fyrirtæki á innlendum samkeppnismarkaði. Þau hafa lakari samkeppnisstöðu gagnvart erlendum keppinautum. Fyrirtækin utan krónuhagkerfisins kaupa svo þessi fyrirtæki upp í allt öðru vaxtaumhverfi.

Innbyrðis samkeppnisójöfnuður af þessari stærðargráðu í atvinnulífi einnar þjóðar er fáheyrður. Samt vilja Samtök atvinnulífsins ekki skoða málið og fá umræðuskjal.

Skoðanaskipti ráðandi flokka

Fyrir liggur að þingmenn meirihlutans á Alþingi munu svæfa tillögu formanns Viðreisnar.

Engin haldbær málefnaleg rök eru þó færð fram gegn því að þjóðin fái að ráða. Bein aðkoma þjóðarinnar er bara bönnuð. Punktur.

Samt er það svo að formaður VG flutti slíka tillögu fyrir rúmum sjö árum þegar flokkur hennar var enn í stjórnarandstöðu.

Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins myndaði ríkisstjórn 2017 féllst flokksráð hans á að í stjórnarsáttmála yrði ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnin sprakk hins vegar áður en á það reyndi.

Án skýringar

Tillöguflutningur formanns VG og samþykkt flokksráðs Sjálfstæðisflokksins sýna að í báðum þessum flokkum hefur það sjónarmið verið metið gilt að þjóðin taki sjálf ákvörðun í þessu máli.

Hvað veldur því að þjóðaratkvæði er í þessu stjórnarsamstarfi sett á bannlista hefur aftur á móti ekki verið skýrt út.

Skoðanakannanir sýna þó að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill að hnúturinn verði leystur í þjóðaratkvæði.

Samflot Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarflokkanna í þessu stóra álitamáli er greinilegt, þótt það byggi ekki á skriflegu samkomulagi. Miðflokkurinn og Formaður Samfylkingar taka svo þátt í  samflotinu.

Nokkrir þingmenn Samfylkingar fylgja hins vegar ótvírætt þeim hugmyndum, sem endurspeglast í tillögum Viðreisnar, Starfsgreinasambandsins og Neytendasamtakanna.

Verkfæri til að ná markmiðum

Hugmyndafræðilega má segja að Evrópusamstarfið sé vettvangur hófsamra miðjulausna eða tilraun til stækkunar á norræna velferðar- og markaðsmódelinu. En fyrst og fremst er það verkfæri til að ná hugmyndafræðilegum markmiðum, sem fullvalda þjóðir setja sér.

Þegar um er að ræða þátttöku í jafn umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi er beint lýðræði eðlilegur farvegur til ákvarðanatöku. Bann á að þjóðin ráði þessu máli sjálf til lykta styðst alltént ekki við veigamikil rök.

Andstaðan við óháða úttekt á krónunni styðst heldur ekki við haldbær rök þegar ójöfnuður þrefalda gjaldmiðlakerfisins blasir við öllum þeim, sem hafa opin augu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin